„Þó að sumum finnist krían leiðinleg þá er óþarfi að láta hana fljúga hringinn í kring um hnöttinn einu sinni á ári til þess að fólk geti gert börnin þeirra að klessu,“ segir Jóhanna Ósk Kristjánsdóttir, á Árnesi II í Árneshreppi.

Jóhanna sendi á dögunum út ákall til „íbúa, sjómanna og gesta Árneshreppsfólks“ að sýna kríunni tillit. „Nú fer að líða að því að ungarnir sækja á götuna og þá verðum við mannfólkið að sýna aðgát. Langmest af þeim er hér á milli bæjanna Árnes 1 og Árnes 2,“ benti hún á í færslu á Facebook. „Ef þú kæri lesandi kannast við að keyra á miklum hraða hér framhjá, vinsamlega hægðu á þér.“

Kaflar á þjóðvegi 643 framan við bæi í Trékyllisvík eru malbikaðir. „Það eru sumir sem vilja nota þá kafla og gefa aðeins í - þótt þeir séu stuttir,“ segir Jóhanna við Fréttablaðið. Hún kveður ástandið hafa gengið fram af krökkunum á svæðinu. Fyrir nokkrum árum hafi þau útbúið skilti til að biðja vegfarendur að sýna aðgát við kríuvarpið.

„Þetta voru bara klessur á veginum fyrir framan. Við vorum að senda krakkana út til að tína upp hræin og koma þessu í burtu. Þannig að krakkarnir máluðu á þessi skilti og settu upp við veginn,“ útskýrir Jóhanna.

Í fyrra kveðst Jóhanna hafa sett sig í samband við Vegagerðina sem nú hafi sett upp viðvörunarskilt vegna varpsins. „Það virðist bara hafa ósköp lítið að segja, því miður. Þannig að við fórum bara út með gömlu skiltin aftur og dengdum þeim líka inn á milli. Það er eins og að það grípi örlítið meira en það eru einstaka sem keyra þannig að maður fær bara hland fyrir hjartað,“ segir hún.

Í Árnesi II er eitt af stærri æðarvörpum landsins að sögn Jóhönnu.  „Við erum æðarbændur þannig að viið viljum hafa kríuna og pössum upp á hana. Hún lætur okkur alltaf vita ef það kemur tófa eð minkur. Krían er útvörður fyrir okkur og þess vegna viljum við hafa sem mest af henni, hún er ómissandi.“