Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, mun tilkynna um formannsframboð sitt á morgun, föstudag.

Fréttablaðið hefur öruggar heimildir um að von sé á tilkynningu til fjölmiðla og að Kristrún muni lýsa yfir framboði sínu síðdegis á morgun.

Blaðið greindi frá því í morgun að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, myndi ekki bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar á landsfundi flokksins sem fer fram í lok október.

Á landsfundi Samfylkingarinnar verður kosið um arftaka Loga Einarssonar fráfarandi formanns flokksins.

Dagur sagði í samtali við Fréttablaðið að hann væri að hefja nýtt kjörtímabil í borginni og ætti ekki sæti á þingi og því væri langsótt að hann byði sig fram til formennsku.

Aðspurður hvort hann hygðist að bjóða sig fram til Alþingis fyrir næsta kjörtímabil vildi Dagur ekki útiloka það.