„NEI, þið fáið ekki að kúga mig og fleiri konur á næstu mánuðum og árum með svona ömurlegum, nafnlausum áróðri.“
Þetta skrifar Kristrún Frostadóttir, hagfræðingur og frambjóðandi Samfylkingarinnar á samfélagsmiðlinum Twitter og beinir hún orðum sínum að Viðskiptablaðinu.
Í nafnlausum ritstjórnarpistli í nýjasta tölublaði undir nafni Óðins er skotið föstum skotum að Kristrúnu vegna gagnrýni hennar í garð Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Eins og Fréttablaðið greindi frá gaf Kristrún lítið fyrir skýringar Ásgeirs um að byggðastefna Reykjavíkur hafi haft áhrif til hækkunar á fasteignaverði.
„Það þarf einhver að segja STOPP og það geri ég núna. Viðskiptablaðið, sem kallar sig fréttamiðil atvinnu- og viðskiptalífsins hefur staðið fyrir nafnlausum áróðurspistli, „ÓÐINN“, vikulega,“ skrifar Kristrún.
„Þar hefur hver konan á eftir annarri verið tekin fyrir, iðulega á mun svæsnari hátt en karlarnir sem eru frekar talaðir upp þarna sem „snillingar,“ skrifar hún og segir kollega sinn, Guðrúnu Johnsen hafa verið skotspón sömu pistla í rúman áratug.
„Nú ætla þessir „snillingar“ greinilega að byrja á mér. Ég held nú ekki,“ segir Kristrún. Vitnað sé til ummæla hennar í pistli Óðins þar sem orðið „stjörnuhagfræðingur“ kemur fyrir. Í pistlinum er Kristrún síendurtekið titluð sem slík.
„Guð hjálpi konu sem tekur undir jákvæð ummæli, hvað þá talar vel um sjálfa sig! Þvílíkur hrokagikkur, hvernig dettur mér þetta í hug? Það mætti halda að ég hafi ekkert gert síðasta áratug til afla mér þekkingar, Yale, Morgan Stanley, aðalhagfræðingur. Stelpuskjáta.“
Segir markmiðið að slá eignarhaldi á efnahagsumræðuna
Í pistli Óðins er jafnframt vikið að því komið hafi verið upp kaupaukakerfi í Kvikubanka, gamla vinnustað Kristrúnar.
„Sem þó var ekki háð afkomu bankans né hvernig einstaka starfsmenn stæðu sig. Þetta er vegna fáránlegra laga um starfsmenn fjármálafyrirtækja, sem eru einu starfsmenn fyrirtækja landsins sem ekki mega fá bónus fyrir vel unnin störf nema með umtalsverðum takmörkunum.
Þessar reglur voru settar af ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem sat árin 2009-2013. Ekki er líklegt að fylgið muni aukast ef kemur í ljós að stjörnuhagfræðingurinn hafi fengið áskriftarréttindi í bankanum og hagnast verulega á því.“
Kristrún segir að hér sé verið að klína á sig þeirri mynd að hún sé ekki nægilega mikill jafnaðarmaður. „Það eru bara hægri menn sem mega sýsla með fé, taka áhættu og eignast einhvern pening!“ skrifar Kristrún.
„Hér er látið eins og ég sitji á ótrúlegum auðæfum, manneskja sem fékk ekkert fjárhagslega í vöggugjöf og er svo sannarlega ekki að græða fjárhagslega á því að skipta um gír. Markmiðið er augljóst; að slá eignarhaldi hægrimanna og fólks með djúpa vasa á efnahagsumræðuna,“ segir hún.
„Um leið og kandídat sem mark er á takandi í efnahagsmálum kemur úr óvæntri átt, gengur í flokk á vinstrisíðunni og vill nýta þekkingu sína til góðs fyrir venjulegt fólk, þá þarf að halda þeim einstaklingi niðri. Þetta er fullkomlega fyrirsjáanlegt svo sem.“
Ætlar ekki að breyta sér þó hún sé í framboði
Kristrún segist hafa fengið sinn skerf af árásum vegna kynferðis síns í gegnum tíðina. Fyrsta árið sitt í bankageiranum hafi hún verið áreitt af virtum viðskiptavini fyrir framan kollega, sem hlegið hafi að atburðinum og grínast með það.
Hún hafi setið undir hrútskýringum og heyrt af slúðri karlmanna um sig útfrá kynferði. Hún hafi þó látið heyra í sér á vettvangi hagfræðinnar, sem sé einstaklega karllæg grein.
„Ég ætla ekki að breyta mér þó ég sé í framboði. Ég ætla ekki að taka þátt í þöggun og leyfa þessum aðilum að halda áfram nafnlausum áróðri. Mætið fólki málefnalega, í það minnsta hafið kjarkinn til að skrifa undir nafni ef þið ætlið að lítilsvirða. Skammist ykkar,“ skrifar Kristrún.
„Þið fáið ekki að skapa áfram „hostile“ umhverfi fyrir konur í sviðsljósinu með þessum hætti. Ég vil sjá nýja kynslóð af fólki í pólitík, ungar konur sem þora að mæta sitjandi öflum, þora að setja ofan í háttsetta karlmenn sem virðast geta sagt hvað sem er.
Það skiptir máli hverjir sitja á þingi fyrir þjóðina og það er ekki í lagi að ýta undir menningu sem heldur ungum konum frá mikilvægri ákvörðunartöku og umræðu. Viðskiptablaðið ætti að sjá sóma sinn í að styrkja konur á þessum vettvangi frekar en niðurlægja.“
NEI, þið fáið ekki að kúga mig og fleiri konur á næstu mánuðum og árum með svona ömurlegum, nafnlausum áróðri. 1/17 👇@Vidskiptabladid pic.twitter.com/dem6ENaQIV
— Kristrún Frostadóttir (@KristrunFrosta) July 8, 2021