Krist­rún Frosta­dóttir, þing­maður Sam­fylkingarinnar, gagn­rýnir um­mæli Bjarna Bene­dikts­sonar, fjár­mála­ráð­herra, þar sem hann varði söluna á hluta­bréfum í Ís­lands­banka í við­tali hjá Kristjáni Kristjáns­syni á Sprengi­sandi í dag.

„Mikið væri það nú gott ef fjár­mála­ráð­herra hefði á­huga á að mæta í við­töl með öðrum, þar sem hann getur ekki bara keyrt yfir hlutina og talað um að allir séu alltaf á háa C-inu. Sé ekki betur en að fjár­mála­ráð­herra sé sjálfur á háa C-inu í þessu við­tali í morgun,“ skrifar Krist­rún í pistli á Face­book þar sem hún merkir Katrínu Jakobs­dóttur for­sætis­ráð­herra og kallar eftir við­brögðum.

Krist­rún tekur til tíu at­huga­semdir þar sem hún gagn­rýnir mál­flutning fjár­mála­ráð­herra og sakar hann meðal annars um að drepa málinu á dreif og fría sig á­byrgð af hneykslinu.

„Það er ekki hægt að klappa sér á bakið fyrir það eitt að ná að selja 50 milljarða króna eign. Það er hægt að selja svona eign fyrir gott verð án þess að skandalar fylgi,“ skrifar hún.

Bjarni birti sjálfur færslu á Face­book rétt í þessu þar sem hann segir rök­semda­færslu stjórnar­and­stöðunnar undan­farna daga vera komna í hring.

„Það er mikil­vægt að öflug um­ræða fari fram um sölu hluta í Ís­lands­banka, rétt eins og önnur þjóð­þrifa­mál. Öllu verra er þegar mestur tíminn fer í að leið­rétta rang­færslur og gífur­yrði stjórnar­and­stöðunnar – sem oftar en ekki eru flutt gagn­rýnis­laust af ýmsum miðlum,“ skrifar hann.

Drepi málinu á dreif

Að hennar sögn var aug­ljóst af út­boðinu að það var næg eftir­spurn og gagn­rýni fólks á það snúi að því hvernig salan fór fram. Fjár­mála­ráð­herra hélt því fram á Sprengi­sandi að skoða þyrfti málið af sann­girni og að salan hefði tekist vel.

„Að benda á loka­verð­miðann er leið til að drepa málinu á dreif. Fjár­mála­ráð­herra getur ekki varið sig með því að segja að verðið hafi verið fínt og þá skipti engu máli þó mögu­leg spilling sé til staðar. Þegar þú byrjar að færa línuna svona, hvað er í lagi og hvað ekki, út frá heildar­tölunni ertu kominn á mjög hættu­legan stað. Það að ráð­herra í ríkis­stjórn Ís­lands orði hlutina með þessum hætti er mjög al­var­legt,“ skrifar Krist­rún.

Ekki verið leið­rétt

Í við­talinu á Sprengi­sandi sagði Bjarni jafn­framt að það væri alls ekki satt að allir kaup­endur hafi selt hlutina sína aftur á hærra verði strax eftir út­boðið.

„Menn rjúka til og grípa alls­konar hluti sem er fleygt fram. Kjarninn fer fram og segir að meiri­hluti hafi selt strax eftir út­boðið. Þetta er al­rangt og leið­rétt en ég er enn­þá að hitta blaða­menn sem halda þessu fram við mig,“ sagði Bjarni.

Krist­rún segir fjár­mála­ráð­herra ekki fara rétt með mál hvað þetta varðar.

„Nei, það hefur ekki verið leið­rétt og alls ekki stað­fest að sé al­rangt. Það sem hefur gerst er að Banka­sýslan á­kvað að gefa út tak­markaðar upp­lýsingar um kaup­endur eins og staðan var nokkrum vikum eftir út­boð – nota bene, hér er ríkis­stofnun að sjálf­velja á­kveðnar upp­lýsingar eftir henti­semi.“

Spyr hvort Bjarni sé hæfur í starfi

Þá segir Krist­rún fjár­mála­ráð­herra hafa notað „klassíska taktík“ í við­talinu hjá Kristjáni með því að spyrja þátta­stjórn­enda á móti hvað hafi farið úr­skeiðis við söluna og virðist vera hreint út sagt gáttuð á því.

„Hefur fjár­mála­ráð­herra í al­vöru talað enga skoðun né þekkingu á fjár­mála­mörkuðum? Er við­komandi hæfur í starfi sem fjár­mála­ráð­herra eftir nær ára­tug í starfi ef hann þarf að fá FME til að segja sér að þetta séu ekki eðli­legir við­skipta­hættir?“

Fólk ekki fætt í gær

Krist­rún gagn­rýnir einnig um­mæli Bjarna um að þing­leg með­ferð málsins hafi verið góð og segir að ekki sé hægt að skýla sér á bak við það að fólk hafi ekki vitað að út­boðið myndi fara eins og raun bar vitni. Þá segir hún Banka­sýsluna hafa borið skylda til að flagga málinu í ljósi þess að víkja átti frá eðli­legu til­boðs­ferli og halda lokað út­boð.

„At­hugum að það er hér sem mögu­legt lög­brot er m.a. til staðar: For­sendan fyrir því að halda ekki opið út­boð var að rík á­stæða væri til. Sú á­stæða féll þegar litlum aðilum var hleypt að og aðilum sem skuld­settu sig fyrir kaupunum. Allt minnis­blaðið frá Banka­sýslunni til ráð­herra 20 janúar 2022 er upp­fullt af setningum sem gefa sterk­lega til kynna að á­herslan sé á stóra lang­tíma­fjár­festa. Fólk er ekki fætt í gær – ef allir halda að hlutirnir séu á ein­hvern veg, er það aug­ljóst að það voru undir­liggjandi skila­boð,“ skrifar hún.

Dæmir sig sjálft

Þá gagn­rýnir Krist­rún um­mæli fjár­mála­ráð­herra traust á fjár­mála­kerfinu hafi ekki beðið hnekki en Bjarni sagðist í við­talinu „hafna þeirri kenningu að fjár­mála­markaðir hafi beðið hnekki“.

„Það að fjár­mála­ráð­herra hafi ekki á­hyggjur af því að í út­boði á ríkis­eign hafi sölu­aðilar mögu­lega „tippað“ ein­hverja fjár­festa fyrir fram um söluna, inn­herjar hafi keypt og þeir sem sjálfir séu ná­lægt sölunni, og skamm­tíma­fjár­festum, er mjög al­var­legt. Þessi fram­setning hjá nánasta sam­starfs­manni for­sætis­ráð­herra, sem hún hefur í­trekað varið, dæmir sig sjálf,“ skrifar Krist­rún.

Að lokum segir Krist­rún Bjarna stæra sig af því að salan á Ís­lands­banka muni auka styrk ríkis­sjóðs og gera honum kleift að ráðast í inn­viða­fjár­festingar.

„Fyrir það fyrsta er hann ekki eini maðurinn sem getur selt ríkis­eign. Að senda þau skila­boð að svona hliðar­spilling eða vanda­mál sé hálf­partinn nauð­syn­leg til að fá pening inn í kassann er ekki í lagi. Í öðru lagi er hvergi hægt að finna þessi vil­yrði hans í ný­út­kominni fjár­mála­á­ætlun,“ skrifar hún.

Pistil Krist­rúnar má lesa í heild sinni á Face­book-síðu hennar.