Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir ummæli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, þar sem hann varði söluna á hlutabréfum í Íslandsbanka í viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni á Sprengisandi í dag.
„Mikið væri það nú gott ef fjármálaráðherra hefði áhuga á að mæta í viðtöl með öðrum, þar sem hann getur ekki bara keyrt yfir hlutina og talað um að allir séu alltaf á háa C-inu. Sé ekki betur en að fjármálaráðherra sé sjálfur á háa C-inu í þessu viðtali í morgun,“ skrifar Kristrún í pistli á Facebook þar sem hún merkir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og kallar eftir viðbrögðum.
Kristrún tekur til tíu athugasemdir þar sem hún gagnrýnir málflutning fjármálaráðherra og sakar hann meðal annars um að drepa málinu á dreif og fría sig ábyrgð af hneykslinu.
„Það er ekki hægt að klappa sér á bakið fyrir það eitt að ná að selja 50 milljarða króna eign. Það er hægt að selja svona eign fyrir gott verð án þess að skandalar fylgi,“ skrifar hún.
Bjarni birti sjálfur færslu á Facebook rétt í þessu þar sem hann segir röksemdafærslu stjórnarandstöðunnar undanfarna daga vera komna í hring.
„Það er mikilvægt að öflug umræða fari fram um sölu hluta í Íslandsbanka, rétt eins og önnur þjóðþrifamál. Öllu verra er þegar mestur tíminn fer í að leiðrétta rangfærslur og gífuryrði stjórnarandstöðunnar – sem oftar en ekki eru flutt gagnrýnislaust af ýmsum miðlum,“ skrifar hann.
Drepi málinu á dreif
Að hennar sögn var augljóst af útboðinu að það var næg eftirspurn og gagnrýni fólks á það snúi að því hvernig salan fór fram. Fjármálaráðherra hélt því fram á Sprengisandi að skoða þyrfti málið af sanngirni og að salan hefði tekist vel.
„Að benda á lokaverðmiðann er leið til að drepa málinu á dreif. Fjármálaráðherra getur ekki varið sig með því að segja að verðið hafi verið fínt og þá skipti engu máli þó möguleg spilling sé til staðar. Þegar þú byrjar að færa línuna svona, hvað er í lagi og hvað ekki, út frá heildartölunni ertu kominn á mjög hættulegan stað. Það að ráðherra í ríkisstjórn Íslands orði hlutina með þessum hætti er mjög alvarlegt,“ skrifar Kristrún.
Ekki verið leiðrétt
Í viðtalinu á Sprengisandi sagði Bjarni jafnframt að það væri alls ekki satt að allir kaupendur hafi selt hlutina sína aftur á hærra verði strax eftir útboðið.
„Menn rjúka til og grípa allskonar hluti sem er fleygt fram. Kjarninn fer fram og segir að meirihluti hafi selt strax eftir útboðið. Þetta er alrangt og leiðrétt en ég er ennþá að hitta blaðamenn sem halda þessu fram við mig,“ sagði Bjarni.
Kristrún segir fjármálaráðherra ekki fara rétt með mál hvað þetta varðar.
„Nei, það hefur ekki verið leiðrétt og alls ekki staðfest að sé alrangt. Það sem hefur gerst er að Bankasýslan ákvað að gefa út takmarkaðar upplýsingar um kaupendur eins og staðan var nokkrum vikum eftir útboð – nota bene, hér er ríkisstofnun að sjálfvelja ákveðnar upplýsingar eftir hentisemi.“
Spyr hvort Bjarni sé hæfur í starfi
Þá segir Kristrún fjármálaráðherra hafa notað „klassíska taktík“ í viðtalinu hjá Kristjáni með því að spyrja þáttastjórnenda á móti hvað hafi farið úrskeiðis við söluna og virðist vera hreint út sagt gáttuð á því.
„Hefur fjármálaráðherra í alvöru talað enga skoðun né þekkingu á fjármálamörkuðum? Er viðkomandi hæfur í starfi sem fjármálaráðherra eftir nær áratug í starfi ef hann þarf að fá FME til að segja sér að þetta séu ekki eðlilegir viðskiptahættir?“
Fólk ekki fætt í gær
Kristrún gagnrýnir einnig ummæli Bjarna um að þingleg meðferð málsins hafi verið góð og segir að ekki sé hægt að skýla sér á bak við það að fólk hafi ekki vitað að útboðið myndi fara eins og raun bar vitni. Þá segir hún Bankasýsluna hafa borið skylda til að flagga málinu í ljósi þess að víkja átti frá eðlilegu tilboðsferli og halda lokað útboð.
„Athugum að það er hér sem mögulegt lögbrot er m.a. til staðar: Forsendan fyrir því að halda ekki opið útboð var að rík ástæða væri til. Sú ástæða féll þegar litlum aðilum var hleypt að og aðilum sem skuldsettu sig fyrir kaupunum. Allt minnisblaðið frá Bankasýslunni til ráðherra 20 janúar 2022 er uppfullt af setningum sem gefa sterklega til kynna að áherslan sé á stóra langtímafjárfesta. Fólk er ekki fætt í gær – ef allir halda að hlutirnir séu á einhvern veg, er það augljóst að það voru undirliggjandi skilaboð,“ skrifar hún.
Dæmir sig sjálft
Þá gagnrýnir Kristrún ummæli fjármálaráðherra traust á fjármálakerfinu hafi ekki beðið hnekki en Bjarni sagðist í viðtalinu „hafna þeirri kenningu að fjármálamarkaðir hafi beðið hnekki“.
„Það að fjármálaráðherra hafi ekki áhyggjur af því að í útboði á ríkiseign hafi söluaðilar mögulega „tippað“ einhverja fjárfesta fyrir fram um söluna, innherjar hafi keypt og þeir sem sjálfir séu nálægt sölunni, og skammtímafjárfestum, er mjög alvarlegt. Þessi framsetning hjá nánasta samstarfsmanni forsætisráðherra, sem hún hefur ítrekað varið, dæmir sig sjálf,“ skrifar Kristrún.
Að lokum segir Kristrún Bjarna stæra sig af því að salan á Íslandsbanka muni auka styrk ríkissjóðs og gera honum kleift að ráðast í innviðafjárfestingar.
„Fyrir það fyrsta er hann ekki eini maðurinn sem getur selt ríkiseign. Að senda þau skilaboð að svona hliðarspilling eða vandamál sé hálfpartinn nauðsynleg til að fá pening inn í kassann er ekki í lagi. Í öðru lagi er hvergi hægt að finna þessi vilyrði hans í nýútkominni fjármálaáætlun,“ skrifar hún.
Pistil Kristrúnar má lesa í heild sinni á Facebook-síðu hennar.