Krist­rún Frosta­dóttir, aðal­hag­fræðingur Kviku banka, hefur sam­þykkt að gefa kost á sér í sæti á lista Sam­fylkingarinnar í Reykja­vík fyrir næstu al­þingis­kosningar. Jóhann Páll Jóhanns­son, fyrrum blaða­maður sem hefur starfað við ráðgjöf fyrir þingflokk Samfylkingarinnar, hefur einnig sam­þykkt að gefa kost á sér.

Jóhann Páll stað­festir við Frétta­blaðið að hann sæktist eftir sæti en ekki hefur náðst í Krist­rúnu. Hún staðfesti þetta þó við Kjarnann fyrr í dag.

Ráðgefandi skoðanakönnun

Sam­fylkingin mun að þessu sinni fara nokkuð ó­hefð­bundna leið í vali sínu á lista í Reykja­víkur­kjör­dæmunum. Sér­stök upp­stillingar­nefnd innan flokksins mun stilla upp fram­boðs­listunum en til hlið­sjónar mun hún hafa niður­stöður úr ráð­gefandi skoðana­könnun flokks­manna sem fer fram á fimmtu­dag.

Flokks­menn hafa getað til­nefnt fólk til fram­boðs en nefndin hefur síðan haft sam­band við þá sem til­nefndir eru og spurt hvort þeir vilji gefa kost á sér í skoðana­könnunina. Þessi leið til upp­röðunar á lista hefur einkum verið notuð hjá sænska Sósíal­demó­krata­flokknum. Kristrún og Jóhann hafa bæði samþykkt að gefa kost á sér í skoðanakönnuninni.

Ekki náðist í Krist­rúnu við gerð fréttarinnar en í sam­tali við Kjarnann segist hún vilja nýta þekkingu sína á efna­hags­málum til góðs fyrir Sam­fylkinguna. Hún telur flokkinn hafa alla burði til að vera leiðandi afl í hrein­skiptinni um­ræðu um hvað felst í á­byrgri hag­stjórn. Mikil eftir­spurn var eftir kröftum Krist­rúnar í fram­boð og segist hún ekki hafa getað skorast undan henni.

Jóhann Páll starfaði lengi sem blaða­­maður hjá Stundinni áður en hann hætti þar til að sinna verk­efnum fyrir þing­­flokk Sam­­fylkingarinnar. Í sam­tali við Frétta­blaðið segist hann sækjast eftir því að vera ofar­lega á lista:

„Já, það er ekkert leyndar­mál að ég er spenntur fyrir því að vera ofar­lega á fram­boðs­lista Sam­fylkingarinnar fyrir næstu Al­þingis­kosningar en við sjáum bara til hvernig þessi skoðana­könnun fer og hvað flokks­fé­lagar vilja. Það er mjög mikið í húfi og ég vil bara að vinstrinu gangi sem allra allra best og að það takist að mynda sterka fé­lags­hyggju­stjórn eftir næstu kosningar með skýra sýn í at­vinnu­málum, vel­ferðar­málum og lofts­lags­málum.“