Gríðarleg tækifæri til sóknar eru vannýtt í nýju fjárlagafrumvarpi að mati Kristrúnar Frostadóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Kristrún segir að fjárlögin virðist ekki endurspegla þá stórhuga orðræðu sem birtist til dæmis í kynningu stjórnarsáttmálans um helgina. Hún segir að miðað við þá áherslu sem lögð var á loftslagsmálin í stjórnarsáttmálanum komi að óvart að ekki séu lagðir meiri fjármunir til þar.

„Það er ekkert nýtt í loftslagsmálum þarna, það eru enn einungis þessir 13 milljarðar á ári sem fara í loftslagsmálin. Þetta er undir hálfu prósenti af landsframleiðslu, á meðan til að mynda Evrópusambandið er að leggja 1,5 til 2 prósent í græna umbreytingu. Það er engin græn umbreyting augljós þarna.“

Að sögn Kristrúnar eru engar afsakanir til að vera ekki raunverulega stórhuga í verki.

„Landið liggur bara þannig og þetta er ekki í samræmi við það sem þau kynntu á sunnudaginn,“ segir Kristrún.

Engin sjáanleg viðbót í kjaraumræðuna

Kristrún nefnir fjárfestingartölurnar einnig sem vannýtt sóknartækifæri. „Ef við skoðum fjárfestingatölur fyrir árið sem er að líða. Þær líta verr út en var spáð í vor og það er engin sjáanleg breyting miðað við fyrri áætlanir fyrir næsta ár.“

Að sögn Kristrúnar virðist vera að enginn sé að hlaupa af stað, „og þau virðast svolítið rög við þessa sókn sem þau segjast vera að boða.“ Hún segir lokapunktinn í því samhengi vera sá að mikið hafi verið rætt um launaþróun í kynningu fjármálaráðherra og verðbólguþrýsting í því samhengi á komandi ári. Samt sé engin sjáanleg viðbót í fjárlagafrumvarpinu inn í kjaraumræðuna. Stærsti parturinn af verðbólgu í dag sé íbúðamarkaðurinn og að það sé ekkert nýtt fjármagn að fara í uppbyggingu á vegum ríkisins eða stuðning á vegum ríkisins miðað við fyrri áform.

Tilfærslur barnabóta á milli tekjuhópa

Kristrún bendir einnig á barnabæturnar, „sem eru aðrar tilfærslur sem myndu kannski draga úr launahækkunarþörf.“

Sú heildarupphæð sé ekki að aukast, henni sýnist svo að eingöngu sé verið að færa upphæðir á milli tekjuhópa, frá millitekjuhópum til þeirra sem eru í lágtekjuhópum.

„Þannig að það er ekkert nýtt fjármagn að koma inn í þann lið til að mynda ákveðna mótstöðu við launaþrýstinginn,“ segir Kristrún.

Grunnþáttum velferðarkerfisins ekki sinnt

Aðspurð hvað kom mest að óvart í fjárlögunum segir Kristrún það vera tvennt. Fyrst og fremst loftslagsmálin og innviðafjárfestingu sem snúist um að byggja upp nýtt kerfi, móta nýtt samfélag og skapa forsendur til að vaxa.

Síðan séu það grunnþættirnir, velferðarkerfið, staðan á íbúðamarkaði, stöðu viðkvæmra hópa í samfélaginu; örykja og eldri borgara. Kristrún segir enga afsökun til að vera ekki sinna velferðarkerfinu.

„Ég bjóst ekki við miklu í málefnum öryrkja og eldri borgara, ég get alveg viðurkennt það, þannig að það kemur mér ekki að óvart en það kemur mér meira að óvart að þessi stórhuga sókn sem var boðuð hún sést ekki í þessum tölum.“

Umfangsmiklar breytingar ólíklegar

Kristrún er ekki bjartsýn á miklar breytingar á fjárlögunum. „Miðað við hversu hratt þarf að afgreiða þetta þá hef ég áhyggjur af því að það muni ekki skapast nægjanlegt svigrúm til að ræða þessa hluti í þaula,“ segir hún.

„Það er auðvitað alvarlegt því þessi ríkisstjórn er með ákveðin markmið til fjögurra ára og ef að strax á fyrsta ári þau fara of hægt af stað og það gefst ekki tími til aðhalds til þess að fá inn hagsmuna aðila og utanaðkomandi greiningaraðila til að leggja mat á þetta þá auðvitað dregur það úr möguleikum okkar til þess að komast almennilega af stað í þetta kjörtímabil.“

Að sögn Kristrúnar muni fjárlaganefndin fylgja þessum málum eftir og reyna ýta á eftir því að það verði bætt í þá.

„Svo líka auðvitað að sækja áframhaldandi kjarabætur fyrir viðkvæma hópa í samfélaginu,“ bætir Kristrún jafnframt við.

Ekkert til fyrirstöðu að funda á milli jóla og nýárs

Aðspurð hvenær hún telji líklegt að meðferð fjárlagafrumvarpsins ljúki segist hún ekki klár á því. Það sé samkomulagsatriði sem að einhverju leyti ráðist af vilja ríkisstjórnarinnar til að gefa þessu nægan tíma.

„Mér finnst fullkomlega eðlilegt að við gefum okkur allan þann tíma sem þarf, ekkert því til fyrirstöðu að það verði haldnir fundir hér milli jóla og nýárs. Þingmenn og ráðherrar ættu alveg að geta sinn þessum málaflokki á þessum árstíma,“ segir Kristrún að lokum.