„Þetta er bara ó­trú­legt hvað hefur gerst hérna, ó­trú­legt,“ segir Kristófer Jónatans­son sem dvelur á Nýja-Sjá­landi um þessar mundir. Kristófer fór til Nýja-Sjá­lands í janúar síðast­liðnum og hugðist koma heim til Ís­lands í þessari viku. Ó­víst er þó með öllu hve­nær hann kemst heim.

„Ætlunin var að fljúga heim á morgun,“ segir Kristófer en flugi hans frá Mel­bour­ne í Ástralíu til Frankfurt í Þýska­landi var af­lýst.

Hann brá því á það ráð að kaupa sér flug frá Nýja-Sjá­landi til Hong Kong næst­komandi föstu­dag, þaðan til London og loks til Kefla­víkur og greiddi hann sam­tals 560 þúsund krónur fyrir það. Nú er ljóst að af því flugi verður ekki þar sem yfir­völd í Hong Kong hafa á­kveðið að loka al­þjóða­flug­vellinum frá og með næsta mið­viku­degi. Öll sund virðast því vera að lokast fyrir Kristófer.

Síðustu dagar verið erfiðir

Kristófer kom til Nýja-Sjá­lands þann 11. janúar síðast­liðinn og segir hann dvölina hafa verið afar á­nægju­lega, kannski fyrir utan síðustu daga enda margt búið að breytast vegna CO­VID-19 far­aldursins. Hann hefur sinnt sjálf­boða­störfum og farið í göngu­ferðir og hugðist hann dvelja á far­fugla­heimili í Auck­land síðustu daga ferðarinnar.

Kristófer er öllum hnútum kunnugur á Nýja-Sjá­landi enda hefur hann heim­sótt landið níu sinnum sem ferða­maður, að eigin sögn. Ó­vissan er þó ó­þægi­leg og vill hann gjarnan komast heim til Ís­lands.

Kristófer bendir á að yfir­völd á Nýja-Sjá­landi hafi boðað hertar að­gerðir til að hefta út­breiðslu veirunnar. Í gær höfðu rúm­lega hundrað manns greinst með veiruna á Nýja-Sjá­landi. Yfir­völd til­kynntu að neyðar­stig 4 tæki gildi á mið­viku­dag, en það þýðir að fólk þarf að halda sig heima og þá verður öllum skólum og mörgum fyrir­tækjum lokað. Það er ekki spennandi að vera ferða­maður í slíku á­standi.

Veit ekki hvað gerist

Kristófer hefur búið á Ís­landi í 21 ár, en hann er fæddur í Kanada og með tvö­falt ríkis­fang. Hann fór á eftir­laun undir lok árs 2018 eftir að hafa starfað í tæp 20 ár á hjúkrunar­heimilinu Grund. Hann kveðst hafa nóg af peningum á milli handanna, að sinni að minnsta kosti, og sem betur fer sé hann ekki í þeirri stöðu að hafa ekki í nein hús að venda. Hann fær sín eftir­laun og þá leigir hann tvö her­bergi sem hann hefur tekjur af.

Kristófer kveðst hafa leitað til utan­ríkis­ráðu­neytisins og skráð sig í gagna­grunn borgara­þjónustunnar. Þá ætlar hann einnig að leita til kanadískra yfir­valda og at­huga hvort þau geti að­stoða hann við að komast þangað. Þá hefur hann leitað ráða hjá vin­konu sinni sem starfar í sendi­ráðinu í Brussel og at­hugað hvort hún geti gefið honum ráð.

„Ég veit líka að Þjóð­verjar eru að skipu­leggja flug fyrir sína ríkis­borgara en ef ég kæmist í það myndi ég bara komast til Þýska­lands. Hvað myndi gerast eftir það?“ spyr hann.

Málin færri en flóknari

Um 9,000 manns hafa skráð sig á gagnagrunn fyrir Íslendinga erlendis hjá utanríkisþjónustunni. Stöðugt er unnið í þeim grunni og reynt eftir megni að flytja þau sem vilja komast heim til Íslands. Í samtali við Fréttablaðið segir Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra:

„Við erum núna með svona 4,500 manns í tugum landa og þetta hefur gengið allt alveg þokkalega. Málunum fer fækkandi en þau verða sífellt flóknari. Þó nokkur fjöldi hefur átt erfitt með að komast heim undanfarin sólarhring. Flug felld niður og kröfur hertar.“

Nú hefur kostnaður við flug hækkað mikið. Hefur verið rætt að koma til móts við fólk með kostnaðinn?

„Það sem við höfum verið að einbeita okkur að í utanríkisþjónustunni er að reyna aðstoða fólk við að komast heim. Leiðbeina þeim og veita upplýsingar,“ segir Guðlaugur og bætir við:

„Það verður að vera mjög skýrt að það mega allir Íslendingar koma heim. Það er alveg sama hvaðan þeir koma. Það mega allir koma heim.“

Guðlaugir segir að lögð sé mikil áhersla á að aðstoða fólk og upplýsa það eins og kostur er.

„Við erum með sólarhringsvaktir í því. Það hefur í sjálfum sér gengið vel en eins og var fyrirséð verður það erfiðari með tímanum og þess vegna var lögð áhersla á það að þeir sem vilja fara heim að þeir fari heim sem allra fyrst,“ segir Guðlaugur og beinir þessum skilaboðum til Íslendinga sem nú eru erlendis og hyggja á heimför.

„Þeir sem ætla sér að koma og vilja koma heim að þeir geri það sem allra fyrst.“


Gerð krafa um nei­kvætt CO­VID-próf

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hefur nokkur fjöldi Íslendinga leitað til ráðuneytisins þar sem þeir eru í vandræðum með að komast heim. Ríf­lega 4.500 manns eru með skráðan heim­ferðar­dag í dag eða síðar, en þar af er þriðjungur á Spáni þar sem flugframboð er óðum að minnka. Tæplega 1.000 eru með áætlaða heimferð fyrir mánaðamót, um 1.000 næstu tvo mánuði og 2.500 manns með óvissan heimferðardag, sem bendir til þess að þau dvelji langdvölum erlendis.

Þá hefur ráðu­neytið verið að fást við færri en erfiðari mál en áður eins og Guðlaugur Þór bendir á. Dæmi eru um að sum ríki geri til dæmis kröfur um alls­konar gögn áður en fólk fer um borð í flug­vélar, jafn­vel stað­festingu um nei­kvætt CO­VID-19 próf, en eins og kunnugt er ríkir skortur á sýna­tökupinnum í heiminum og erfitt – jafn­vel ó­mögu­legt – fyrir hvern sem er að út­vega sér slíkt vott­orð.

Fólk hafi sam­band við borgara­þjónustuna

Utan­ríkis­ráðu­neytið hvatti í morgun Ís­lendinga sem eru á ferða­lagi er­lendis, eða þeim sem dvelja tíma­bundið er­lendis og hyggja á heim­ferð á næstunni, að snúa heim sem fyrst. „Flug­fram­boð fer ört minnkandi vegna víð­tækra ferða­tak­markana á heims­vísu. Vís­bendingar eru um að flug­sam­göngur lokist innan ör­fárra daga,“ sagði í færslu á Face­book-síðu ráðu­neytisins. Tekið var skýrt fram að ekki væri verið að loka landinu heldur sé ó­vissa um hvernig far­þega­flugi verður hátt á næstu dögum og vikum.

„Utan­ríkis­þjónustan á í nánu sam­starfi við utan­ríkis­þjónustur Norður­landanna og fylgist með flug­fram­boði nor­rænna flug­fé­laga. Mikil­vægt er að fólk sem á í erfið­leikum með að komast burtu þaðan sem það er statt hafi sam­band við borgara­þjónustuna.“

Hvetur ráðu­neytið alla sem eru á ferða­lagi er­lendis að skrá sig í grunn borgara­þjónustunnar svo hægt sé að miðla til þeirra upp­lýsingum ef þörf er á. „Þeir sem eru komnir heim eru beðnir að af­skrá sig úr grunninum svo hægt sé að fá sem besta mynd af því hversu margir eru enn er­lendis.“

Hægt er að hafa sam­band við borgara­þjónustu utan­ríkis­ráðu­neytisins með skila­boðum á Face­book, með tölvu­pósti á hjalp@utn.is eða í neyðar­síma borgara­þjónustu +354 545-0-112 sem er opinn allan sólar­hringinn.