Íslenska ríkið var sýknað af kröfum Kristjáns Viðars Júlíussonar og Tryggva Rúnars Leifssonar um bætur vegna Guðmundar- Geirfinnsmála í tveimur dómum Héraðsdóms Reykjavíkur í síðdegis í dag.

Með dómunum er hvorum um sig gert að greiða ríkinu 1.5 milljónir í málskostnað.

Í báðum málum var krafist yfir 1,6 milljarða í bætur fyrir frelsisskerðingu, fjölda ólöglegra rannsóknaraðgerða meðan rannsókn málanna stóð yfir, tjón fyrir atvinnumissi og fleira.

Dómsforsendur eru þó ólíkar. Niðurstaða í máli Kristjáns Viðars byggir á nákvæmlega sömu forsendum og dómur í máli Guðjóns Skarphéðinssonar sem féll fyrr í sumar en í máli Tryggva Rúnars er byggt á aðildarskorti dánarbús hans.

Kristján Viðar og Tryggi Rúnar voru báðir sýknaðir af aðild að mannshvörfunum með dómi Hæstaréttar árið 2018. Kristján Viðar er því lögum samkvæmt saklaus af aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar, sem hann var sakfelldur fyrir í Hæstarétti árið 1980 og báðir eru þeir lögum samkvæmt saklausir af hvarfi Guðmundar Einarssonar sem þeir voru sakfelldir fyrir árið 1980.

Fallist á allar málsástæður ríkisins

Í hinum nýfallna dómi í bótamáli Kristjáns Viðars er fallist á allar helstu málsástæður ríkislögmanns. Krafa Kristjáns sé fyrnd, því dómur árið 2017 breyti engu um hvenær málsatvik sem krafist sé bóta fyrir áttu sér stað. Samkvæmt þágildandi fyrningarlögum er fyrningarfrestur tíu ár frá því hinn bótaskyldi atburður átti sér stað og sýknudómur Hæstaréttar breyti engu um hvenær málsatvikin urðu.

Dómur frá 1980 hafi sönnunargildi

Í forsendum er dvalið við sönnunarreglur og tekið fram að dómari skeri úr um, með mati á framlögðum gögnum hvort staðhæfing um umdeild atvik teljist sönnuð. Það hvíli á stefnanda að sanna að hann eigi rétt til bóta.

Ítrekað er vísað til þess að í sýknudómi Hæstaréttar sé ekki fjallað efnislega um málsatvik í málinu. Er því slegið föstu að dómurinn hafi ekki sönnunargildi um málsatvikin. Um þau er vísað til dóms réttarins frá áttunda áratugnum þar sem Kristján Viðar og aðrir sakborningar voru sakfelldir fyrir að hafa orðið Geirfinni að bana.

„Um málsatvik var hins vegar dæmt í dómi Hæstaréttar í máli nr. 214/1978 og ber því að líta til þess dóms varðandi málsatvikin, nema að því leyti sem „það gagnstæða er sannað“”, segir í niðurstöðu héraðsdóms. Þá segir einnig að úrskurði endurupptökunefndar verði ekki jafnað til matsgerðar dómkvaddra matsmanna og teljist ekki sönnunargagn að því er varðar málsatvik, sem gangi framar dómi Hæstaréttar frá 1980.

Eigin sök Kristjáns Viðars svipti hann bótarétti

Vísað er til ummæla í kröfugerð setts saksóknara í endurupptökumálinu þess efnis að vísbendingar séu um að játningar í málunum hafi átt við rök að styðjast því „ætla mætti að til undantekninga heyri að svo margir einstaklingar játi ranglega aðild að atlögu að manni eða mönnum sem leitt hafi hann eða þá til dauða og einnig að vitni styðji við þær játningar.“ Hins vegar hafi engin lík fundist, ekkert sé vitað um dánarorsök og engum áþreifanlegum sönnunargögnum sé til að dreifa um að mönnum þessum hafi yfirhöfuð verið ráðinn bani. Í dómi Héraðsdóms eru þær ályktanir dregnar að sýknukrafa ákæruvaldsins í málinu hafi byggt á því að hlutlæg sönnunargögn skorti í málinu.

Fallist er einnig á málsástæðu ríkisins að Kristján Viðar hafi sjálfur stuðlað að aðgerðum gegn sér með frumburði sínum í skýrslutökum. Um þetta segir meðal annars í dóminum. „Hafi játningar stefnanda og þeir framburðir sem hann gaf við rannsókn málsins og fyrir dómi ekki verið sannleikanum samkvæmt, þá skiptir það í raun ekki máli varðandi rétt stefnanda til bóta. Með því að gefa rangan framburð við rannsókn máls er rannsóknin afvegaleidd, sem leiðir til lengri rannsóknartíma sem og þess að kveðinn verður upp rangur dómur. Auk þess getur það verið refsivert, samanber 142. gr. almennra hegningarlaga, að skýra rangt frá fyrir dómi og að taka á sig sök. Með vísan til framburða þeirra sem stefnandi gaf fyrir dómi hefur hann sjálfur valdið þeim aðgerðum sem hann reisir kröfur sínar á. Því hefur stefnandi fyrirgert rétti sínum til bóta.“

Málsmeðferðin „lélegur leikþáttur“

Arnar Þór Stefánsson lögmaður Kristjáns segir að þessi niðurstaða komi alls ekki á óvart enda um að ræða sama dómara og sýknaði ríkið í máli Guðjóns Skarphéðinssonar.

„Við vorum ósáttir við að sami dómari skyldi dæma í báðum málum en gátum ekki fengið því haggað. Því var meðferð málsins í héraði í reynd lélegur leikþáttur þar sem niðurstaðan var fyrir fram ljós“, segir Arnar Þór. Markmiðið hafi verið að koma málinu sem fyrst fyrir Landsrétt en hann staðfestir að dóminum verði áfrýjað. Niðurstaða héraðsdóms geti ekki staðið óhögguð þar eð hún sé að hans mati lögfræðilega röng í öllum atriðum.

Erfingjar Tryggva geti ekki átt aðild

Eftirlifandi eiginkonu og dóttur Tryggva Rúnars voru greiddar samtals milljónir í bætur í janúar síðastliðnum en dánarbú Tryggva Rúnars Leifssonar, krafðist rúmlega 1,6 milljarðs í bætur til viðbótar og er bæði um skaðabóta- og miskabótakröfur að ræða: Skaðabótakröfur vegna tjóns af atvinnumissi og annars fjárhagstjóns en miskabætur vegna frelsisskerðingar og rannsóknaraðgerða sem beindust að Tryggva Rúnari undir rannsókn málsins, frelsisskerðingar sem hann sætti við afplánun dóms og vegna áfellisdóms sem kveðinn var upp yfir honum árið 1980.

Það er niðurstaða dómsins að dánarbú Tryggva Rúnars, það er erfingjar hans, geti ekki átt aðild að málinu og því beri að sýkna ríkið af kröfunum. Vísað er til laga um skipti á dánarbúum um að þegar maður sé látinn taki dánarbú hans við öllum

fjárhagslegum réttindum sem hann átti þá eða naut, nema annað leiði af réttarreglum, löggerningi eða eðli réttindanna. Í engu hafi verið skýrt af hálfu stefnanda hvaða kröfu Tryggvi Rúnar hafi átt vegna Guðmundarmálsins þegar hann féll frá árið 2009. „Tryggvi Rúnar andaðist 1. maí 2009 og átti hann þá engin fjárhagsleg réttindi vegna sýknudóms Hæstaréttar í máli nr. 214/1978. Því voru ekki til staðar nein fjárhagsleg réttindi honum tengd sem gátu runnið til dánarbúsins,“ segir í dóminum. Í stefnu sé byggt á því að réttindin hafi orðið til við sýknudóm Hæstaréttar en hann hafi verið kveðinn upp rúmum níu árum eftir andlát Tryggva Rúnars. „ Að mati dómsins skortir verulega á skýrleika í málatilbúnaði stefnanda um það hvernig stefnandi, það er dánarbú Tryggva Rúnars Leifssonar, geti verið aðili að máli þessu og á hverju dánarbúið byggi rétt sinn til hinna umkröfðu bóta,“ segir enn fremur í dóminum.

Lagalega ótækt að ríkið græði á andláti Tryggva

Páll Rúnar M. Kristjánsson, lögmaður aðstandenda Tryggva Rúnars er ekki sáttur við þessa niðurstöðu og málinu verði áfrýjað til Landsréttar. Hann segir kröfu umbjóðenda sinna lögvarða og hún njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu. Í því felist að eignarrétturinn verði ekki skertur nema samkvæmt lagaboði sem byggist á almenningsþörf.

Slík regla væri ekki bara lagalega ótæk heldur væri hún siðferðislega ámælisverð enda fælist í henni að íslenska ríkið hefði fjárhagslegan ábata af andláti umbjóðanda míns.

„Þegar Tryggvi Rúnar lést var ekki í lögum nein regla um að bótaréttur hans félli niður við andlát, það er að segja, rynni ekki til dánarbús hans. Slík regla væri ekki bara lagalega ótæk heldur væri hún siðferðislega ámælisverð enda fælist í henni að íslenska ríkið hefði fjárhagslegan ábata af andláti umbjóðanda míns. Það stenst enga skoðun að tjónvaldur geti hagnast á andláti tjónþola án þess að fyrir því sé sett regla í lögum sem auk þess þyrfti að byggja á málefnalegum sjónarmiðum sem vandséð er að geti verið til,“ segir Páll Rúnar.