Kristján Viðar Júlíus­son, einn af sak­borningum í Guð­mundar-og Geir­finns­málinu, krefst þess að ís­lenska ríkið greiði rúma 1,6 milljarð króna vegna ó­réttar, tjóns og miska sem hann varð fyrir. Greint er frá í kvöld­fréttum RÚV.

Eins og Frétta­blaðið greindi frá lagði Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, í gær fram frum­varp um heimild til að greiða bætur vegna dómsins. Heildar­fjár­hæð bóta liggur ekki fyrir en tekið er fram að stjórn­völd hafi rætt um að greiða fimm­menningunum sem sýknaðir voru og að­stand­enum um 800 milljónir króna.

Í frétt RÚV kemur fram að Kristján telur sig meðal annars eiga rétt á bótum þar sem hann hafi verið sekur maður að ó­sekju í tæp fjöru­ti­íu ár, auk þess að hafa setið inni í sjö og hálft ár. Þá kemur fram í kröfunni að ríkið hafi bakað sér bóta­skyldu með blaða­manna­fundi sem haldinn var árið 1977.

Arnar Þór Stefáns­son, lög­maður Kristjáns, segist í kvöld­fréttum fagna frum­varpi Katrínar en tekur fram að hug­myndirnar nægi ekki til að bæta hans tjón. Það verði sótt í dóms­málinu. Arnar hefur sent ríkis­lög­manni kröfu­bréf, þar sem er krafist að ríkið greiði 1.624.763.720 krónur vegna ó­réttar, tjóns og miska sem hann varð fyrir í tengslum við málið.

„Stærsti liðurinn er auð­vitað sá, að vera sviptur frelsi í alla þessa daga,“ segir Arnar Þór og segr að um sé að ræða á­kveðna að­ferðar­fræði í því hvað skal dæma fyrir hvern dag í því. „Síðan eru aðrir liðir einnig. Það er til dæmis það að vera dæmdur sekur og að vera sekur í 40 ár, sem er svo ekki leið­rétt fyrr en 40 árum síðar. Það er einn bóta­liðurinn.“

„Ég er einnig að horfa til þess að á þessum blaða­manna­fundi 1977, þá var því lýst yfir að málið væri upp­lýst. Þetta er blaða­manna­fundur þýsks rann­sóknar­lög­reglu­manns, Karl Schütz, og í kjöl­farið lýsir dóms­mála­ráð­herra því yfir að mar­tröð sé létt af þjóðinni. Þetta gerist löngu áður en Hæsti­réttur dæmir í málinu. Þannig að með þessu var verið að for­dæma fólkið. Og það leiðir til bóta­réttar að mínum dómi.“