Kristján viðar Júlíusson er látinn, 65 ára að aldri. Andlát hans hefur ekki verið formlega tilkynnt af aðstandendum hans en samkvæmt Íslendingabók lést hann 7. mars síðastliðinn.

Kristján Viðar var sýknaður af aðild að Guðmundar- og Geirfinnsmálum í Hæstarétti í september 2018 í kjölfar endurupptöku málsins.

Handtekinn tvítugur og sætti haldi í 1522 daga

Kristján Viðar var aðeins tvítugur að aldri þegar hann var handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald í lok árs 1975, vegna rannsóknar á hvarfi Guðmundar Einarssonar. Hann sætti gæsluvarðhaldi í 1522 daga. Hann var dæmdur í 16 ára fangelsi fyrir aðild að dauða Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar með dómi Hæstaréttar sem kveðinn var upp árið 1980. Hann lauk afplánun vegna dómsins í júní 1983 og hafði þá sætt frelsissviptingu vegna málsins í rúm sjö ár.

Þótt Kristján hafi dregið játningar sínar til baka meðan á gæsluvarðhaldi stóð og lýst sakleysi sínu, óskaði hann aldrei sjálfur eftir endurupptöku málsins. Settur saksóknari beiddist endurupptöku til hagsbóta fyrir Kristján árið 2018 eftir að aðrir dómfelldu höfðu óskað eftrir endurupptöku málsins. Við endurupptökuna var meðal annars byggt á sálfræðimati tveggja réttarsálfræðinga, Gísla Guðjónssonar og Jóns Friðriks Sigurðssonar. Að þeirra mati voru játningar Kristjáns Viðars í málinu óáræðanlegar.

Börn hans erfa bótafjárhæð

Kristján Viðar fékk 204 milljónir í bætur vegna málsins í upphafi síðasta árs. Kristján átti börn sem erfa munu féð. Áður en fyrrnefnd bótafjárhæð var greidd hafði Kristján Viðar krafið ríkið um 1,6 milljarð króna í bætur og stefndi hann ríkinu vegna mismunarins.

Ríkið var sýknað af kröfu hans í héraði og er málið nú til meðferðar í Landsrétti. Lög um meðferð einkamála gera ráð fyrir því að dánarbú taki við málarekstri við andlát aðila máls og því verður að ætla að mál Kristjáns verði áfram til meðferðar þrátt fyrir að Kristján Viðar sé látinn.