Kristján var ákærður fyrir að hafa ekið bíl sínum eftir tveimur vegum, Hlíðarvegi og Vallarbraut á Hvolsvelli, eftir að hafa verið sviptur ökuréttindum. Hann játaði skýlaust brotið, ákvað að fara fyrir dómara án lögmanns og átti sannarlega ekki von á því að fá á sig 15 mánaða fangelsisdóm, enda eru slíkir dómar óalgengir í málum sem varða umferðarlagabrot.

Í dómnum kemur fram að Kristján hafi áður þurft að sæta refsingu vegna aksturs án ökuréttinda, síðast með dómi Landsréttar í október þar sem hann fékk einnig 15 mánaða fangelsisdóm.

Dómari taldi ekki tilefni til að gera dóminn skilorðsbundinn vegna þess að brotið var framið fyrir uppkvaðningu dómsins í Landsrétti.

„Refsing ákærða er hæfilega ákveðin fangelsi í fimmtán mánuði. Með vísan til dómvenju sem og að virtum sakaferli ákærða þykja ekki efni til að skilorðsbinda refsinguna,“ segir í dómnum.

Kristján segist ætla að áfrýja dómnum og ráðfæra sig við lögfræðing í þetta sinn. Segir hann algjöran óþarfa að fylla fangelsin af mönnum sem stelast út í búð á bílnum, sérstaklega í ljósi plássleysis.

„Þetta var hálf kjánalegt. Maður hefur ekkert vit á þessu,“ segir Kristján um þá ákvörðun að flytja málið sjálfur í héraðsdómi.

Héraðsdómur Suðurlands dæmdi Kristján Má Guðnason í fimmtán mánaða fangelsi líkt og Landsréttur hafði gert í öðru máli.
Mynd/Eyþór Árnason

„Það er ekki aftur snúið en ég er þakklátur fyrir að geta sagt það að ég hafi ekki valdið neinum skaða eða slysum á þessum ferli,“ undirstrikar Kristján sem kveður dóminn „algjörlega út úr kortinu“. Hann hafi ekki einu sinni verið tekinn fyrir ölvunarakstur og aldrei lent í slysi.

„Ég var í raun stoppaður fyrir að kíkja út í búð. Á sama tíma er bara slegið á puttann á kynferðisbrotamönnum sem fremja endurtekin brot.“

Segist Kristján vilja nýta sinn ófagra feril, sem nær mörg ár aftur í tímann, til forvarna.

„Auðvitað á þetta að vera refsivert en það mætti líka taka inn í dæmið að það hjálpi kannski ekki alltaf að refsa mönnum og fangelsa þá. Það mætti heldur reyna að komast að því hvað sé að valda því að einstaklingur brjóti trekk í trekk af sér á sama hátt,“ segir Kristján sem sjálfur hefur sínar kenningar um þetta atriði.

„Ég vil meina að það sé oftar en ekki rótleysi, vonleysi eða kvíði. Kannski veit einstaklingur ekki hvert eða hvernig hann á að leita sér aðstoðar eða finnst það niðurlægjandi. Ég er mikið að skoða alla þessa hluti þessa dagana, sérstaklega hvað varðar mín mál,“ segir Kristján um stöðu sína.