„Þátturinn var mjög sláandi, það var mjög sorglegt að horfa upp á þetta,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í samtali við Fréttablaðið, um umfjöllun Kveiks og Stundarinnar í gær um mál Samherja í Namibíu

„Þarna falla þungar og alvarlegar ásakanir sem kalla á að þeim sé mætt. Það liggur fyrir að málið er nú komið til meðferðar hjá héraðssaksóknara og skattrannsóknarstjóra, þá er mikilvægt að embættin fái ráðrúm til að rannsaka málið.

Kristján Þór var stjórnarformaður Samherja fyrir aldamót og hefur átt í samskiptum við stjórnendur Samherja síðan þá. Hann segir málið ekki hafa neinar pólitískar afleiðingar fyrir sig

„Ég sé ekki hvernig það á að gerast. Það hefur alla tíð verið mín afstaða að ef mál tengd Samherja koma inn á mitt borð þá læt ég gera athugun á hæfi mínu til að takast á við þau.“

Hann undirstrikar að hann hafi aldrei hafst vitneskju um þetta mál fyrr en hann fékk tölvupóst frá Stundinni í síðustu viku. „Ég þekkti þetta ekki með neinum hætti.“

Kristján Þór kannast ekki við að þeir viðskiptahættir sem greint er frá í umfjölluninni séu viðhafðir hér á landi.

„Það eru lög í þessu landi sem ætlast er til að fyrirtæki fylgi. Sem betur fer er gagnsæið meira hér en víða í Afríku og við eigum möguleika á að fylgjast betur með hlutunum hér en þar.“

Hann segir ljóst að málið hafi áhrif á umræðuna um sjávarútveginn. „Þetta er gríðarlega stórt og öflugt fyrirtæki, umræða á þessum nótum um það hefur áhrif á orðsporið hér og víðar.“