Fundur stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis um frumkvæðisathugun á hæfi Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í ljósi stöðu hans gagnvart Samherja hófst í dag klukkan 9 og lauk nú rétt fyrir klukkan hálf ellefu. Tekist var á um skráðar og óskráðar hæfisreglur stjórnsýsluréttar

Fjórðungur nefndarinnar samþykkti að hefja frumkvæðisathugun á hæfi ráðherrans 6. desember síðastliðinn og óskað var eftir skriflegri greinagerð þann 17. desember. Óskað var eftir upplýsingum um hvort reynt hafi á hæfi ráðherrans í málum sem tengjast Samherja, hvernig hæfi hans er metið og hvaða lög gilda til grundvallar á mati á hæfi ráðherra.

Að sögn Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanni Pírata og formanni nefndarinnar, reyndust svörin ekki fullnægjandi en næsta skref var að spurja ráðherran nánar út í efni greinagerðarinnar.

Ekki vanhæfi að hringja í Þorstein Má

Í svari sínu um hæfi vísaði Kristján til laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkissins númer 70/1996 og þriðju grein stjórnsýslulaga númer 37/1993.

Meðal þess sem um var rætt var símtal Kristjáns við Þorstein Má Baldvinsson, þáverandi forstjóra Samherja. Guðmundur Andri Thorsson, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Kristján hvort það hafi ekki verið athugavert að hringja beint í Þorstein en Kristján sagðist einungis vera að sinna athafnaskyldu sinni.

Aðspurður hvort það hafi ekki ákveðið vanhæfi kristallast með því að hringja beint í Þorstein þar sem að þeir þekktust fyrir, og því óljóst hvort Kristján hafi talað við Þorstein sem gamall vinur eða ráðherra, sagði Kristján svo ekki vera. „Þú ert einn og sami maðurinn og ég er einn og sami maðurinn. Þú leggur ekkert mat á það við hvorn hluta sjálfsins þú ert að tala,“ sagði Kristján.

Engra hagsmuna að gæta

„Sú staða sem ríkti gagnvart Samherja var einfaldlega sú að ég hafði engra hagsmuna að gæta gagnvart því fyrirtæki,“ sagði Kristján um tengls sín við Samherja og mat hann svo að tengslin yllu ekki vanhæfi þar sem málið varðaði ekki mikilsverða hagsmuni.

Þá greindi hann frá því að aðeins tvö mál sem komu til kasta ráðuneytisins hafi verið tengd Samherja og að það heyrði til undantekninga að stjórnsýsluákærur kæmu á borð ráðherra.

„Það er ekkert fyrir mig eða ráðuneytið að fela í þessu máli. Af minni hyggju erum við með algjörlega hreinan skjöld í því sem við höfum verið að vinna og alveg kýrskýrt í mínum huga að það leikur ekki nokkur vafi á því að við viljum vinna á grunni þeirra reglna um hæfi, skráðum sem og óskráðum sem um það gilda og þiggjum gjarnan allar leiðbeiningar um úrbætur í þeim efnum ef að fólk sér ástæðu til,“ sagði Kristján að lokum.

Hægt er að horfa á fundinn í heild sinni hér fyrir neðan.