„Ég hef óskað eftir því að Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs­ráð­herra mæti sem fyrst á fund at­vinnu­vega­nefndar til að fara yfir á­hrif Sam­herja­málsins,“ segir Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, full­trúi Vinstri grænna í at­vinnu­vega­nefnd á Face­book í dag. Hún segir brýnt að ráð­herra ræði sem allra fyrst við þing­menn vegna málsins.

„Sam­herja­málið er af þeim skala og af því um­fangi að ís­lensk stjórn­mál geta ekki setið hjá að­gerða­laus.“

Vill ræða að­gerðar­á­ætlun

Á fundinum kveðst Rósa Björk vilja ræða hvaða á­hrif Sam­herja­skjölin hafi á önnur ís­lensk fyrir­tæki og greinina í heild inni. Þá hyggst hún vilja vita hvort ráðu­neytið hafi gripið til ein­hverra að­gerða vegna málsins. „Og ef svo er, til hvaða að­gerða þá?“

Margar hliðar eru á málinu að sögn Rósu Bjarkar en grunn­kjarninn er nýting auð­linda og út­deiling arðs af þeirri nýtingu. „Sam­söfnun auðs á fárra manna hendur, í stað þess að meiri arður af nýtingunni renni í sam­eigin­lega sjóði okkar allra er stefið í margra ára deilum ís­lensks sam­fé­lags um fisk­veiði­stjórnunar­kerfið.“

Orð­spor Ís­lands í hættu

Rósa telur að á­hrif Sam­herja­málsins eigi enn eftir að koma í ljós að fullu leyti. Hún segir á­hrifin geta verið marg­þætt og mörgum steinum þurfi að snúa.

„Þar undir er skatt­kerfi okkar og eftir­lit með því, sam­þjöppun í sjávar­út­vegi, al­þjóða­sam­vinna sem snýst ekki bara um heilindi í þróunar­sam­vinnu og eftir­fylgni með henni, heldur líka að standa við al­þjóð­lega samninga um að­gerðir gegn peninga­þvætti og spillingu, náin tengsl stjórn­málanna og sjávar­út­vegs­fyrir­tækja. Stjórnar­skrár­breytingar sem beðið hefur verið eftir í allt of langan tíma. Orð­spor okkar á er­lendri grundu. Og fleira - eins ó­trú­legt það kann að hljóma.“

Sjávar­út­vegs­ráð­herra hefur áður sagt að hann muni ekki koma til með að taka á­kvörðun í málum sem tengjast Sam­herja rati þau á hans borð. Kristján hafði einnig orð á því að Sam­herja­málið gæti komið til með að hafa á­hrif á trú­verðug­­leika sinn sem ráð­herra.