Kristján Þór Júlíus­son, sjávar­út­vegs- og land­búnaðar­ráð­herra, þver­tekur fyrir að hafa setið á fundi á­samt hátt­settum Namibíu­mönnum sem sakaðir eru um að hafa þegið mútu­greiðslur frá Sam­herja. Líkt og al­þjóð veit var fjallað um Sam­herja­málið í þætti Kveiks í gær. Í þættinum kom fram að sjávar­út­vegs­ráð­herra hafi tekið í hendina á mönnunum sem sakaðir eru um spillingu á skrif­stofu Sam­herja fyrir um fimm árum.

Í við­tali við RÚV segir Kristján að eins­kær til­viljun hafi valdið því að hann hafi verið á skrif­stofu Sam­herja þennan dag. „Ég rek þarna inn nefið og heilsa þessum mönnum og á við þá spjall um daginn og veginn en grund­vallar­at­riði í þessum málum fyrir mig er að ég hef engin af­skipti af þessu eða upp­lýsingar um við­skipti eða neitt því um líkt og þar af leiðandi hef ég ekkert að fela í þessum efnum,“ sagði Kristján í við­talinu.

Hefur taugar til Sam­herja

Hann þver­tók fyrir að hafa verið boðaður á téðan fund og sagðist hafa verið í allt öðrum erinda­gjörðum á skrif­stofunni. „Þannig hittist bara á í þessu til­felli að ég á per­sónu­legan fund með ein­stak­lingi sem ég hef þekkt í langan tíma um allt önnur mál að þá rekst ég á þessa ein­stak­linga.“

Þá segist ráð­herrann ekki hafa haft af­skipti af fyrir­tækinu síðan hann hætti í stjórn Sam­herja fyrir ní­tján árum. „Auð­vitað hefur maður taugar til fyrir­tækisins og starf­seminnar fyrir norðan. Eðli­lega, þetta er stór partur af norð­lensku sam­fé­lagi,“ sagði Kristján.

Sjávarútvegsráðherra og dómsmálaráðherra Namibíu hafa sagt upp störfum í kjölfar Samherjamálsins.
Fréttablaðið/Skjáskot/Samsett

Spurði um líðan for­stjórans

Þrátt fyrir taugarnar fékk Kristján ekki veður af um­deildu við­skipta­samningum Sam­herja fyrr en honum barst upp­lýsinga­beiðni frá Stundinni í síðustu viku. Í kjöl­farið heyrði hann í starfs­fólki Sam­herja, þar á meðal for­stjóranum, Þor­steini Má Bald­vins­syni. „Ég var bara að spyrja hvernig honum liði ein­fald­lega.“

Hann furðar sig á því að Sam­herja­menn hafi látið það berast að Kristján væri þeirra maður enda hafi hann á­valt litið á sjálfan sig sem sinn eigin mann og mann fjöl­skyldu sinnar. Ráð­herrann telur sig ekki hafa það orð­spor að vera undan­láts­samur. „Ég hef nú frekar orð á mér fyrir að vera frekar stífur í fram­göngu,“ sagði Kristján.

Skaði trú­verðug­leika ráð­herrans

Lík­legt er að málið komi til með að hafa á­hrif á trú­verðug­leika Kristjáns sem ráð­herra að hans mati. Það sé þó al­farið í höndum fyrir­tækisins að svara fyrir þær á­sakanir sem bornar hafa verið upp.

Í sam­tali við frétta­stofu Sýnar segist Kristján ætla að segja sig frá mál­efnum Sam­herja rati þau á hans borð. Enginn efi sé í hans huga að hann muni ekki koma til með að taka á­kvörðun í málum sem tengjast Sam­herja sökum for­tíðar hans.