Kristján Þór Magnússon, oddviti Sjálfstæðismanna og sveitarstjóri Norðurþings, upplýsti á sveitarstjórnarfundi í dag að hann muni ekki gefa kost á sér til áframhaldandi pólitískra trúnaðarstarfa. Hann mun því hætta sem sveitarstjóri eftir kosningar í vor.

Kristján Þór sneri til starfa nýverið eftir veikindaleyfi. Hann leiddi Sjálfstæðismenn til sigurs í sveitarstjórnarkosningunum 2018. Síðan hafa komið upp deilumál, nú síðast hafa tveir flokkar í sveitarstjórn, gagnrýnt slælega verkstjórn hans sem sveitarstjóra.

„Ég mun ekki sækjast eftir starfi sveitarstjóra og mun ekki bjóða mig fram fyrir sveitarstjórnarkosningarnar hér í Norðurþingi,“ segir Kristján Þór í samtali við Fréttablaðið. Hann mun starfa sem sveitarstjóri fram að kosningum.

Aðspurður segist Kristján fastlega reikna með að flytja frá Húsavík eftir kosningar. Þá útiloki hann framboð fyrir kosningarnar í vor í öðrum byggðarlögum. „Ég er að horfa í aðrar áttir en að vera beinn þátttakandi í pólitík.“