Kristján Þór Júlíusson situr enn sem starfsráðherra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti þar til ný ríkisstjórn tekur við.

Kristján Þór var ekki í framboði og ætlar að draga sig í hlé frá stjórnmálum, en þarf enn að mæta til vinnu, tveimur mánuðum eftir alþingiskosningarnar.

„Mér líður alls ekki eins og ég sé á einhvern hátt lokaður af, það eru alltaf áhugaverð og skemmtileg verkefni til að sinna í ráðuneytinu og ég geng til þeirra eins lengi og mér ber skylda til,“ segir Kristján Þór.

Aðspurður hvort ekki sé farið að styttast í að nýr ráðherra taki við kveðst Kristján vonast til þess. „Í öllu falli trúi ég að þetta gangi allt upp löngu fyrir blessuð jólin.“

Kristján Þór segist ekki farinn að huga að því hvað hann ætli að gera þegar hann losnar úr ráðuneytinu. Hann hafi verið búinn undir að endurnýjun stjórnarsamstarfsins gæti tekið tíma, enda verk sem vanda þurfi til.

„Ég hlakka til að hafa meira frelsi og ráða meira tíma mínum og verkefnum, en auðvitað er eftirsjá að því að hverfa frá skemmtilegum viðfangsefnum og vinnufélögum. Tilfinningarnar verða því eflaust blendnar þegar kemur að þessu,“ segir Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.