Kristján Berg Ásgeirsson, oft kenndur við Fiskikónginn, hefur ákveðið að loka fiskverslun sinni á Höfðabakka. Verður síðasti dagur verslunarinnar á morgun. „Stór tár renna niður kinnar mínar,“ segir Kristján í færslu á Facebook-síðu sinni.
Í færslunni tíundar hann ástæður þess að hann hefur ákveðið að loka verslun sinni. Nefnir hann til dæmis hátt fiskverð á fiskmörkuðum. Þá séu stórútgerðir að gleypa allan fisk og lítið af fiski berist inn á fiskmarkaði þannig að fiskverð helst hátt.
Þá segir hann erfitt að manna allar stöður frá klukkan 7 til 18:30 alla daga, fólk kaupi minna af fiski en áður sem er ótrúlegt miðað við gæði og heilbrigði vörunnar. Þá hafi ýmislegt hækkað sem hefur gert reksturinn þungan; umbúðir, flutningur, olía, hveiti, hanskar, klósettpappír. „BARA ALLT,“ segir hann.
„Það er sorglegt hvernig svona verslun sem hefur verið starfrækt frá árinu 1994, þurfi að leggja upp laupanna og loka. Þetta er bara fyrsta fiskverslunin sem lokar. Það eiga fleiri fiskverslanir eftir að loka. Það er klárt mál. Enda orðinn lítill grundvöllur fyrir rekstri fiskverslunar á Íslandi í dag,“ segir Kristján og heldur áfram:
„Pizzu og cocapuffs kynslóðin er að taka yfir og borðar minni fisk. Húsmæður landsins eru flestar útivinnandi, mötuneyti landsins bjóða orðið ekki lengur uppá fisk, ekki nema max 1x í viku og alltaf sama í matinn hjá flestum þeirra. Sem leiðir til minnkandi fiskneyslu á heimilum landsins. Unga kynslóðin kann ekki að borða t.d. hrogn og lifur, léttsaltaða ýsu, gellur og kinnar og svo mætti lengi telja. Unga kynslóðin er ekki lengur alin upp við þessa matarmenningu, sem er svo sárt að horfa uppá.“
Færslu Kristjáns má lesa í heild sinni hér að neðan.