Kristinn Sigurjónsson, fyrrum lektor við tækni-og verkfræðideild HR, segist ekki hafa verið skráður sem hlaupari þrátt fyrir að hafa tekið þátt í 10 km hlaupinu og að það væri ekki hægt að heita á sig. Hann veltir fyrir sér hvort um þöggun sé að ræða vegna félagsins sem hann ætlaði sér að styðja.

„Flagan var tékkuð þegar ég fór og kom þá upp mitt nafn. Nafnið mitt kemur svo aldrei upp þegar ég gái að því,“ skrifar Kristinn á Facebook síðu sinni.

„Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé þöggun eins og málefnið hefur illilega rekist á.“

Kristinn segist hafa nú þegar sent tvisvar tölvupóst á skipuleggjendur maraþonsins en hafi einungis fengið svar þar sem kvartað væri yfir álagi. Seinni póstinum hafi ekki verið svarað.

Hann ætlaði sér að hlaupa fyrir Félag um Foreldrajafnrétti, sem hann segir að Háskólinn í Reykjavík hafi rekið hann fyrir að styðja. Hann hafi skráð sig í hlaupið í Laugardalshöllinni um klukkan 16:30 síðastliðinn fimmtudag og hafi allt gengið vel. Seinna hafi hann þó ekki fundið nafn sitt inn á skránni. Kristinn veltir fyrir sér hvort um sé að ræða þöggun en hann segir að það megi hvorki ræða um „tálmanir“ né „foreldrafyrringu“ í fjölmiðlum.

„Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé þöggun eins og málefnið hefur illilega rekist á,“ skrifar Kristinn.

Fréttablaðið leitaði að nafni Kristins á vef Reykjavíkurmaraþons í dag og mátti finna þar allar upplýsingar. Kristinn er þó ekki skráður sem hlaupari og er því ekki hægt að heita á hann. Mikið álag var á vefnum í gær meðan tölur úr hlaupinu voru að detta inn á vefinn í beinni.

www.rmi.is

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fór fram í 36. sinn í gær. Til þátttöku voru skráðir 14.667 hlauparar á öllum aldri að því er fram kemur á vef Reykjavíkurmaraþons. Þátttökumet var sett í 10 km hlaupinu þar sem 7203 tóku þátt, þar á meðal Kristinn. Að sögn Íþróttabandalags Reykjavíkur er þegar búið að slá áheitametið sem sett var í fyrra og eru áheitin komin yfir 160 milljónir.

Fréttablaðið hefur fengið nokkrar ábendingar um að enn vanti einhverjar upplýsingar um tímatöku hlaupara inn á vef Reykjavíkurmaraþons.