Verkfræðingurinn Kristinn Sigurjónsson, sem vikið var úr stöðu lektors við Háskólann í Reykjavík vegna ummæla sem hann lét falla um konur á Facebook, kom þingmanninum Ólafi Ísleifssyni til varnar í símatíma Útvarps Sögu í morgun.

Þá sakaði hann einnig DV og Stundina um að slíta Klaustursupptökurnar svokölluðu úr samhengi og handvelja orð og setningar markvisst til þess að koma höggi á þá sex þingmenn sem létu vaða á súðum undir áhrifum áfengis á Klaustur Bar fyrir rúmri viku.

Sjá einnig: Á sjötta hundrað boðað komu sína á mótmæli við Alþingi

„Ég er nú alveg hættur að hringja inn en nú get ég ekki orða bundist,“ sagði Kristinn þegar hann náði sambandi við Pétur Gunnlaugsson í beinni útsendingu í morgun. Hann sagðist hringja til þess að hvetja Ólaf Ísleifsson, þingflokksformann Flokks fólksins, „til að sitja sem fastast.“

Kristinn studdi mál sitt með því að „í fyrsta lagi hafi hann ekkert sagt“ og að „við vitum ekkert hvort hann var viðstaddur. Þetta var ekki fundur, þetta var drykkjusamkoma. Það var ekki skráð hverjir hefðu skroppið frá, á barinn, klósettið, eða almennt farið.“

„Fáránlegt“ upphlaup vegna DV og Stundarinnar

Þá sagði Kristinn „fáránlegt“ að hlaupa upp til handa og fóta vegna frétta DV og Stundarinnar sem fjölmiðlarnir hafa unnið upp úr upptökunum. „Þeir rífa allt úr samhengi. Við vitum ekkert hvað var talað um þarna,“ sagði Kristinn og áréttaði að „þingkarlar“ hafi einnig fengið það óþvegið á upptökunum og nefndi í því sambandi Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar, sérstaklega í því sambandi.

Sjá einnig: Flokkur fólksins vill að Ólafur og Karl Gauti segi af sér

„Þannig að taka ákvarðanir út frá því sem þessir tveir fjölmiðlar segja það er út af fyrir sig alveg fáránlegt,“  sagði Kristinn og viðraði síðan grunsemdir sínar um að sá sem tók samræður þingmannanna upp hafi verið „njósnari“, jafnvel gerður út af fjölmiðlunum. Hann trúi því í það minnsta ekki að um tilviljun hafi verið að ræða.

„DV og Stundin sko leggja það fyrir sig að taka menn niður, leggja menn í einelti. Þeir taka alltaf eitt sjónarmið. Þeir gætu alveg hafa planað þetta sjálfir. Kæmi mér ekkert á óvart.“

Liggur beinast við að Ólafur gangi í Miðflokkinn

„Þannig að ég bara bið Ólaf Ísleifsson að segja ekki af sér,“ sagði Kristinn þegar hann vék máli sínu aftur að Ólafs þætti Ísleifssonar. „Hann getur velt því fyrir sér hvort hann vilji skipta um flokk.“

Og þá lægi beinast við að ganga í Miðflokkinn þangað sem Kristni skiljist á fréttum að hann sé velkominn. Kristinn sagðist einnig ekki skilja upptökurnar öðruvísi en að á þeim hafi Ólafur staðfastlega neitað að yfirgefa Ingu Sæland en nú hafi hún „rekið hann úr flokknum og þá er bara spurningin hvort hann eigi ekki að fara í Miðflokkinn?“

Sjá einnig: Uppljóstrarinn opnar sig: „Fékk æluna upp í háls“

Aðspurður sagði Kristinn vanda að spá um pólitískar afleiðingar af afhjúpunum Klaustursupptakanna enda væri gallinn sá að „enginn setur sig inn í málið“ heldur sé hlaupið upp til handa og fóta „út af nokkrum setningum sem DV og Stundin setja upp. Menn verða bara að hlusta á alla upptökuna og athuga bara almennt hvað þeir eru að segja.“

Kynjaskipt Alþingi

Í lokin kvað síðan við kunnuglegt stef hjá Kristni þegar hann lagði til að Alþingi yrði kynjaskipt. „Einu sinni, fram að ´91, var Alþingi í tveimur deildum. Efri og neðri deild ef ég man rétt.

Sjá einnig: Brottrekinn lektor leggur til Hjallastefnuna á vinnustöðum

Ég hef velt þeirri spurningu fyrir mér, eigum við ekki bara aftur að hafa tvær deildir? Og þá kalla bara karla- og kvennadeild?“ spurði Kristinn og bætti við að með þessu móti mætti leysa annað „eilíft, sígilt vandamál“ sem væri kynjaskipting og kynjahalli á þingi sem myndi hverfa með tveimur jafn stórum deildum, kvenna annars vegar og karla hins vegar.

Símatími Útvarps Sögu verður endurfluttur klukkan 19 í kvöld á FM 99,4 og utvarpsaga.is.