Kristinn Hrafnsson ritstjóri Wikileaks hitti nýkjörinn forseta Brasilíu Lula da Silva ásamt félögum sínum í Wikileaks í gærkvöldi. Kristinn greinir frá á Facebook síðu sinni og kveðst þakklátur fyrir fundinn.
„Mér þótti sérstaklega vænt um fundinn í ljósi þess að hann er að fara í gegnum gríðarlega erfið valdaskipti þar sem rífa þarf stjórnartaumana af Bolsonoaro,“ skrifar Kristinn. Líkt og fram hefur komið fór Lula með nauman sigur gegn Jair Bolsonaro fyrrverandi forseta landsins í nýafstöðnum forsetakosningum.
Kristinn segir spennuna í höfuðborginni Brasilíu nánast áþreifanlega. „Við áttum gott spjall á löngum einkafundi um málefni Julian Assange og þær pólitísku ofsóknir sem beinast gegn honum og WikiLeaks. Lula hefur sjálfur þurft að þola slíkar ofsóknir og fangelsun og er pólitísk upprisa hans söguleg með kosningasigri fyrir tæpum mánuði,“ skrifar Kristinn.
„Þessi hlýi og þægilegi maður hét áframhaldandi stuðningi við þá baráttu að hrinda ógn við fjölmiðlafresli i heiminum sem ofsókninar gegn Julian fela í sér.
Brasilía, stærsta og öflugasta ríki Suður Ameríku er að senda afdráttarlaus skilaboð til Biden stjórnarinnar. Það hefur Gustavo Petro forseti Kólumbíu þegar gert með skýrum hætti. Fleiri lönd framundan.“