Frum­varp Mið­flokksins og tveggja þing­manna Sjálf­stæðis­flokks um að kristni­fræðsla verði tekin upp á nýjan leik í grunn­skólum var rædd á Al­þingi í gær. Birgir Þórarins­son, fyrsti flutnings­maður, hefur talað fyrir þessu á Al­þingi síðan 2019.

Kennslu í trúar­bragða­fræði var breytt 2007 eftir á­tölur frá nefnd Evrópu­ráðsins gegn kyn­þátta­for­dómum og um­burðar­leysi. „Ég tel eðli­legt og æski­legt að kristin­fræði sé kynnt æsku þjóðarinnar í meira mæli en gert er,“ segir Birgir. „Saga landsins er sam­ofin kristninni og því ætti hún að njóta sér­stöðu innan veggja grunn­skólanna.“

Ekki er lagt til að kennslu um önnur trúar­brögð verði hætt, heldur yrði nám­skráin upp­færð og kristninni gefið meira vægi. Sam­fé­lags­greinar hafa í dag ellefu prósent vægi sem er minna en áður.

Birgir segir á­herslu kristin­fræði lagða í hendur kennara, sums staðar sé hún mjög lítil og sums staðar meira kennt um önnur trúar­brögð. Hafi hann fengið já­kvæð við­brögð við frum­varpinu, til dæmis innan úr þjóð­kirkjunni. „Kristin­fræði­kennsla er ekki trúar­leg boðun heldur fræði­leg kennsla,“ segir Birgir.

Birgir Þórarins­son, þing­maður Mið­flokksins úr Suður­kjör­dæmi og fyrsti flutnings­maður frum­varpsins.
Fréttablaðið/Ernir

Hefur hann ekki trú á á­tölum frá Evrópu­ráðinu verði frum­varpið sam­þykkt. Hinar fyrri hafi verið byggðar á mis­skilningi. Ráðið hafi á­lyktað um að ekkert ó­eðli­legt sé við að meiri á­hersla sé lögð á ríkjandi trúar­brögð. Að­eins um 60 prósent lands­manna eru í þjóð­kirkjunni.

Aðeins 40 prósent segjast trúaðir

Sam­kvæmt ný­legri könnun Maskínu segjast að­eins 40 prósent trúaðir. Birgir telur fækkun í þjóð­kirkjunni ekki rétt­læta að kristni­fræði­kennslu sé gert lægra undir höfði. Þáttur kristninnar í menningunni skipti Ís­lendinga ekki minna máli en sagan og tungan. Fræðsla um ríkjandi trú hjálpi nem­endum af er­lendu bergi að skilja betur siði landsins.

Inga Auð­björg K. Straum­land, for­maður Sið­menntar, segir frum­varpið tíma­skekkju og ó­þarfa. „Kristni eru trúar­brögð og falla þar af leiðandi undir trúar­bragða­fræði­kennslu. Þar að auki er kristni nú þegar gert hærra undir höfði en öðrum trúar­brögðum í skólunum,“ segir hún. „Kirkju­ferðir um jólin og fermingar­fræðslu­ferðir tíðkast enn þá á skóla­tíma þrátt fyrir skóla­skyldu í landinu.“

Inga Auð­björg K. Straum­land, formaður Siðmenntar.

Tekur Inga ekki undir að ís­lenskt sam­fé­lag grund­vallist á kristnum gildum, heldur þeim gildum sem þjóðinni þyki mikil­væg hverju sinni sem séu sam­mann­leg og ekki bundin við á­kveðin trúar­brögð. Ís­land sé nú­tíma­legt fjöl­menningar­þjóð­fé­lag og sögu­leg rök um kristni­fræði­kennslu eigi ekki við í dag. Ó­líkt Birgi telur Inga að kristin­fræði, eins og hún var stunduð til ársins 2007, hafi borið merki trú­boðs.

„Sú kristin­fræði sem ég fór í var mjög miðuð að því að upp­hefja já­kvæða boð­skapinn úr biblíunni og líta fram hjá hinum nei­kvæða,“ segir hún. „Ég tók þátt í helgi­leik eins og kristnin væri sam­eigin­legur partur af lífi okkar allra, sem er alls ekki raunin.“