Frumvarp Miðflokksins og tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokks um að kristnifræðsla verði tekin upp á nýjan leik í grunnskólum var rædd á Alþingi í gær. Birgir Þórarinsson, fyrsti flutningsmaður, hefur talað fyrir þessu á Alþingi síðan 2019.
Saga landsins er samofin kristninni
Kennslu í trúarbragðafræði var breytt 2007 eftir átölur frá nefnd Evrópuráðsins gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi. „Ég tel eðlilegt og æskilegt að kristinfræði sé kynnt æsku þjóðarinnar í meira mæli en gert er,“ segir Birgir. „Saga landsins er samofin kristninni og því ætti hún að njóta sérstöðu innan veggja grunnskólanna.“
Ekki er lagt til að kennslu um önnur trúarbrögð verði hætt, heldur yrði námskráin uppfærð og kristninni gefið meira vægi. Samfélagsgreinar hafa í dag ellefu prósent vægi sem er minna en áður.
Birgir segir áherslu kristinfræði lagða í hendur kennara, sums staðar sé hún mjög lítil og sums staðar meira kennt um önnur trúarbrögð. Hafi hann fengið jákvæð viðbrögð við frumvarpinu, til dæmis innan úr þjóðkirkjunni. „Kristinfræðikennsla er ekki trúarleg boðun heldur fræðileg kennsla,“ segir Birgir.

Hefur hann ekki trú á átölum frá Evrópuráðinu verði frumvarpið samþykkt. Hinar fyrri hafi verið byggðar á misskilningi. Ráðið hafi ályktað um að ekkert óeðlilegt sé við að meiri áhersla sé lögð á ríkjandi trúarbrögð. Aðeins um 60 prósent landsmanna eru í þjóðkirkjunni.
Aðeins 40 prósent segjast trúaðir
Samkvæmt nýlegri könnun Maskínu segjast aðeins 40 prósent trúaðir. Birgir telur fækkun í þjóðkirkjunni ekki réttlæta að kristnifræðikennslu sé gert lægra undir höfði. Þáttur kristninnar í menningunni skipti Íslendinga ekki minna máli en sagan og tungan. Fræðsla um ríkjandi trú hjálpi nemendum af erlendu bergi að skilja betur siði landsins.
Inga Auðbjörg K. Straumland, formaður Siðmenntar, segir frumvarpið tímaskekkju og óþarfa. „Kristni eru trúarbrögð og falla þar af leiðandi undir trúarbragðafræðikennslu. Þar að auki er kristni nú þegar gert hærra undir höfði en öðrum trúarbrögðum í skólunum,“ segir hún. „Kirkjuferðir um jólin og fermingarfræðsluferðir tíðkast enn þá á skólatíma þrátt fyrir skólaskyldu í landinu.“

Tekur Inga ekki undir að íslenskt samfélag grundvallist á kristnum gildum, heldur þeim gildum sem þjóðinni þyki mikilvæg hverju sinni sem séu sammannleg og ekki bundin við ákveðin trúarbrögð. Ísland sé nútímalegt fjölmenningarþjóðfélag og söguleg rök um kristnifræðikennslu eigi ekki við í dag. Ólíkt Birgi telur Inga að kristinfræði, eins og hún var stunduð til ársins 2007, hafi borið merki trúboðs.
„Sú kristinfræði sem ég fór í var mjög miðuð að því að upphefja jákvæða boðskapinn úr biblíunni og líta fram hjá hinum neikvæða,“ segir hún. „Ég tók þátt í helgileik eins og kristnin væri sameiginlegur partur af lífi okkar allra, sem er alls ekki raunin.“