Fólk á tíræðisaldri er meðal þeirra sem fá 30 þúsund króna rukkun frá sjónvarpsstöðinni Omega ofan á hefðbundna greiðsluseðla. Sjónvarpsstjórinn, sem nýlega var dæmdur fyrir skattsvik, segir allt of fáa borga

„Það eru flestir sem hafa bara beðið um þetta. Ég tek þátt í þessu sjálfur persónulega því mér finnst ég þurfa að taka þátt í þessu,“ segir Eiríkur Sigurbjörnsson, sjónvarpspredikari í Omega, um óvenju háa greiðsluseðla sem hafa verið að berast í heimabanka fólks.

Eiríkur segir um að ræða sérstakt afmælisátak í tilefni 30 ára afmælis Omega. Það mun hafa byrjað í september og eiga að standa fram á næsta ár.

Felst átakið í því að þeir sem áður hafa styrkt sjónvarpsstöðina fá sendan aukalegan valgreiðsluseðil í heimabanka upp á 30 þúsund krónur. Er það ofan á tæplega fimm þúsund króna framlag á mánuði.

Hjá Omega er þessari aðferð lýst sem sambærilegri og tíðkist af hálfu Rauða krossins og Hjálparstarfs kirkjunnar, þar sem upphæðirnar eru þó margfalt lægri.

Greiðsluseðlarnir berast meðal annars til margra sem komnir eru vel á efri ár, jafnvel á tíræðisaldur. „Þetta er bara val, fólk velur þetta,“ undirstrikar Eiríkur aðspurður hvort Omega sé ekki að biðja fólk um fullháa upphæð.

„Við erum ekki með neinar auglýsingatekjur eða ríkisstyrki,“ bendir Eiríkur á. Hann kveður starfsemi Omega afar mikilvæga.

„Fólk er að frelsast í gegnum starfið, eignast lifandi trú á Jesú Krist og hefur bjargast,“ fullyrðir sjónvarpsstjórinn.

Of fáir sem borga

Eiríkur var í október síðastliðnum dæmdur í tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða tæplega 110 milljónir króna í sekt fyrir meiriháttar skattsvik.

Fólust svik Eiríks í því að hann skilaði inn röngum skattframtölum á árunum 2011-2016. Sömuleiðis var hann dæmdur fyrir að hafa vanrækt að telja fram miklar úttektir fyrir sjálfan sig úr fyrirtæki í rekstri.

„Við erum ekki að plokka peninga af fólki, við viljum ekki gera það,“ ítrekar Eiríkur.

Skjáskot af valgreiðslunni.
Skjáskot

„Það er bara einn hnappur, delete, þá er því eytt,“ heldur hann áfram.

Aðspurður kveður Eiríkur alltof fáa borga.

„Hvernig eigum við að lifa nema að fólk taki þátt í þessu og eigi hlutdeild í þessu?“ spyr Eiríkur.

„Við þurfum að fá miklu meira inn til að reka fjölmiðla. Það er mikill kostnaður, en árangurinn er mikill. Þið megið bara standa með okkur. Hérna eru margir að selja eiturlyf og nauðgarar, við erum bara ljós í myrkri.“

Eindagi reikningsins vegna afmælisátaks Omega í þessum mánuði er á morgun.