Kristilegir demókratar kusu í dag arftaka Angelu Merkel sem gegnt hefur stöðu formanns flokksins undanfarin átján ár. Annegret Kramp-Karrenbauer var kjörin formaður en hún hlaut 517 af 999 atkvæðum, tæplega 52 prósent.

Undanfarnir mánuðir hafa reynst Merkel erfiðir en hún mun gegna embætti kanslara áfram, líkt og hún hefur gert frá 2005. Kosið var í Þýskalandi í september í fyrra og gekk erfiðlega fyrir Merkel að mynda stjórn. Stjórnarkreppa ríkti í landinu og tók ný stjórn ekki við fyrr en í mars.

Merkel greindi frá því í lok október að hún hygðist ekki sækjast eftir áframhaldandi formannssetu. Það þýðir að hún mun einnig láta af embætti kanslara árið 2021 þegar gengið verður til kosninga næst.

Þá hafa Kristilegir demókratar beðið afhroð í kosningum nokkurra fylkja og í héraðskosningum í Þýskalandi. Þar má til að mynda Bæjaraland og Hesse þar sem nýverið var gengið til kosninga.