Krist­björg Kjeld stendur um þessar mundir reglu­lega á sviði Borgar­leik­hússins í verkinu Er ég mamma mín? Auk þess æfir hún tvö verk fyrir stóru leik­húsin tvö og undir­býr aðal­hlut­verk í nýju verki sem frum­sýna á, árið 2023. Þetta þætti kannski ekki í frá­sögur færandi nema að Krist­björg er 86 ára gömul og löngu komin á eftir­laun.

Verkið Er ég mamma mín? eftir Maríu Reyn­dal er byggt á minningum höfundar um upp­reisn móður hennar gegn fast­mótuðum hlut­verkum hús­móðurinnar á áttunda ára­tug síðustu aldar. Krist­björg fer með hlut­verk móðurinnar á efri árum og hlaut fyrir það Grímu­verð­launin árið 2020.

Á sviðinu birtist heimilis­líf ís­lenskrar fjöl­skyldu á áttunda ára­tugnum ljós­lifandi og hefst spjall okkar Krist­bjargar á verkinu og þeim breytingum sem orðið hafa á sam­fé­laginu á ekki styttri tíma.

„Það er bara ekki hægt að dæma gamla tíma út frá því sem er í dag eins og mikið er gert,“ segir hún.

„María notaði svo sniðuga að­ferð við skrifin en hún var enn að klára að semja leik­ritið þegar við hófum æfingar svo hlut­verkið er nánast skraddara­sniðið á mann.“

Verkið fjallar tölu­vert um hlut­verk kynjanna sem voru önnur á þeim tíma sem verkið gerist og eru fjöl­mörg at­riðin grát­bros­leg. „Sagan er svo sönn, þess vegna hlæjum við. Það sem kemur í út­varpinu, þetta er satt, er þetta ekki magnað?“ segir Krist­björg og er þá að tala um brot úr út­varps­þáttum þessa tíma sem leikin eru í verkinu. Brotin eru úr þáttunum For­vitin Rauð, feminískum þáttum sem birtust á RÚV upp úr 1970.

„Þetta með borð­stofu­stólana, það var ó­trú­legt,“ segir Krist­björg en í út­varps­þáttunum var rifjað upp hvernig á þeim tíma hafi kona ekki þótt nægi­lega merki­leg til þess að líf­tryggja en væri oft bætt sem and­virði tveggja borð­stofu­stóla félli hún frá eða yrði varan­legur ör­yrki.

„Þetta er svo yfir­gengi­legt!“ segir hún og hlær.