Læknar í Afganistan standa nú frammi fyrir einni verstu heilbrigðiskrísu sem landið hefur staðið frammi fyrir en mikil hungursneyð og skortur á nauðsynjavörum hefur gripið um sig í Afganistan í kjölfar þess að Talíbanar tóku völd í landinu.

Breska ríkisútvarpið fjallar um ástandið í afganska heilbrigðiskerfinuí ítarlegri umfjöllun.

Fæðingarlæknirinn Dr. Nuri sem BBC ræddi við segir suma sjúklinga sína vera svo veika af vannæringu að ólíklegt er að þær geti gefið börnum sínum brjóst. Deildir á spítalanum, sem er staðsettur inni í miðju landinu, eru svo troðfullar að hún þarf að troða sér á milli kvenna sem eru í miðjum hríðum upp við blóðstorkna veggi eða liggjandi á skítugum lökum.

Flest ræstingafólk spítalans yfirgáfu hann fyrir löngu síðan eftir að hafa ekki fengið greidd laun í langan tíma en heilbrigðisstarfsfólk í Afganistan hefur neyðst til að vinna launalaust svo mánuðum skiptir því ríkisstjórn Talíbana hefur ekki getað greitt starfsfólki laun.

„Fæðingardeildin er ein glaðlegasta deildin á sérhverjum spítala en ekki lengur í Afganistan. Þetta er eins og helvíti,“ segir Nuri og bætir við að á tveggja vikna tímabili í september hafi hún séð fimm nýfædd börn deyja úr vannæringu.

Afganistan hefur lengi glímt við mikla þurrka og hungursneyð en valdataka Talíbana gerði ill verra og flýtti fyrir efnahagslegu og samfélagslegu hruni landsins. Landið hefur verið mjög háð alþjóðlegri neyðaraðstoð en sú aðstoð hætti skyndilega í ágúst eftir að Talíbanar náðu völdum.

Vestrænir stuðningsaðilar hafa ekki viljað veita peninga til ríkisstjórnar sem styður ekki réttindi kvenna og fremur mannréttindabrot á þegnum sínum í skugga íslamskra sjaríalaga. Þetta hefur gert að verkum að íbúar Afganistan standa nú frammi fyrir einni verstu mannúðarkrísu sögunnar samkvæmt Sameinuðu þjóðunum en búist er við því að um 14 milljón afgönsk börn standi frammi fyrir hungursneyð í vetur.

Spítalar eru á ystu nöf í landinu og hafa nærri 2.300 heilbrigðisstofnanir hafa þegar lokað dyrum sínum. Læknum á afskekktum svæðum hefur reynst erfitt að veita sjúklingum sínum lágmarksþjónustu á borð við verkjalyf fyrir alvarlega veika sjúklinga.

Stór barnaspítali í höfuðborginni Kabúl er sem stendur með 150 prósent fjölda sjúklinga sem margir hverjir glíma við alvarlega hungursneyð.

Það hefur verið nóg að gera hjá sjúkraliðum i Kabúl frá því að Talíbanar komust að völdum
fréttablaðið/getty

Það er svo sárt að sjá þau deyja fyrir framan augun á manni. Fæðingarlæknirinn Dr. Nuri

Forstjóri spítalans, Dr. Siddiqi, upplifði gífurlegan fjölda af dauðsföllum í September í kjölfar þess að fjármagn þurrkaðist upp. Allt að fjögur börn undir 10 ára aldri létust í hverri viku vegna vannæringar eða tengdra ástæðna á borð við matareitrunar og lélegs hreinlætis.

„Þessi börn eru í raun orðin dauðvona áður en þau leggjast inn... Við missum svo mörg af þessum tilfellum,“ segir Siddiqi.

Fyrir þau sem komast inn á spítalann í tæka tíð eru líka fá bjargræði í boði. Spítalann skortir allar helstu nauðsynjavörur, bæði matvæli og lyf, og starfsfólkið á jafnvel erfitt með halda hita á sjúklingum sínum. Það vantar eldsneyti fyrir kyndinguna og Siddiqi hefur brugðið á það ráð að biðja starfsfólk sitt að safna saman trjágreinum og spreki til að brenna í ofni.

Á spítala Dr. Nuri hafa rafmangstruflanir haft alvarlegar afleiðingar. Í eitt sinn sló rafmagninu út í miðri aðgerð svo hlaupa þurfti út í bíl starfsmanns til að ná í bensín fyrir miðstöðina. Þá hafa nokkrir fyrirburar látist vegna þess að hitakassar þeirra hafa bilað.

„Það er svo sárt að sjá þau deyja fyrir framan augun á manni,“ segir Nuri.

Dr Qalandar Ibad, sem var skipaður heilbrigðisráðherra af Talíbönum, sagði BBC í nóvember að ríkisstjórnin væri að vinna í því í samstarfi við alþjóðasamfélagið að koma neyðaraðstoð aftur á í landinu. Hins vegar hafa margir fjársterkir stuðningsaðilar reynt að fara á bak við Talíbanana og veita fjármagni beint inn í heilbrigðiskerfið án milligöngu þeirra. Í nóvember tókst Sameinuðu þjóðunum til að mynda að veita 15 milljónum Bandaríkjadala inn í heilbrigðiskerfið á þann hátt.