Starfsmaður yfirkjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi, sem hafði umsjón með starfsfólki talningar, segir að yfirkjörstjórn hafa byrjað að endurtelja atkvæði áður en hún mætti á svæðið á sunnudeginum 26. september. Hún segir jafnframt að búið hafi verið telja nokkra flokka áður en starfsfólk talningar tók við talningunni.
Þetta kemur fram í drögum málsatvikalýsingar undirbúningsnefndar fyrir rannsókn kjörbréfa á framkvæmd kosninga í Norðvesturkjördæmi sem Fréttablaðið hefur undir höndum.
Í drögunum segir að aðspurð hafi starfsmaðurinn sagt að hún hafi viljað fá að telja öll atkvæðin aftur með sínu talningafólki og að hún „hefði gert athugasemd við oddvita yfirkjörstjórnar hefði hún vitað að hann ætlaði að byrja talninguna áður en hún mætti á staðinn.“
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og nefndarmaður undirbúningsnefndar, segir í samtali við Fréttablaðið það vera á reiki hvort yfirkjörstjórn hafi hafið endurtalningu áður en talningarfólk mætti.
Aðspurð um möguleg áhrif þessa á ákvörðun nefndarinnar sagði hún nefndina ekki vera komna svo langt.
„Það er ýmislegt athugavert við málsatvikin en ég er ekki á þeim stað að draga ályktanir um áhrifin af þeim. Það er vinnan sem er eftir hjá nefndinni, að meta málsatvikin til áhrifa.“
Þá sagðist Líneik ekki vita hvort það væri ólöglegt hafi yfirkjörstjórn hafið endurtalningu áður en talningafólk mætti á svæðið. „Það er ekki hægt að svara því svona já eða nei.“
Það hafa vaknað upp spurningar um það hvort ágreiningur sé innan undirbúningsnefndar sökum þess að málið hefur dregist á langinn.
Líneik segir nefndina vera vinna sig í gegnum öll málsatvik og að samvinnan gangi vel. Hún segir fund nefndarinnar í dag hafa gengið vel þó hann hafi staðið yfir mun lengur en áætlað var. „Þetta er svo ótrúlega sein unnið.“
Aðspurð hvort nefndin muni ljúka störfum í lok vikunnar sagðist Líneik vona það. „Ég þori ekki að fullyrða að það klárist en ég vona það,“ sagði Líneik að lokum.