„Læknar gerðu sér ekki grein fyrir því að fólk væri að nota þetta lyf með þessum hætti og þeir þökkuðu okkar fyrir að setja takmarkanir,“ segir forstjóri Lyfjastofnunar um takmarkanir á ávísun á lyfi sem inniheldur ívermektín.

Einstaklingur lagðist inn á sjúkrahús í vikunni eftir að hafa innbyrt krem sem inniheldur efnið. En hvað var til þess að einhver fann sig knúinn til þess að borða húðkrem eftir að hafa greinst með Covid-19?

Ábendingar hafa borist Lyfjastofnun um umræður á samfélagsmiðlum þar sem einstaklingar mæla með notkun lyfja sem innihalda efnið ívermektín. Vitna margir í rannsókn frá Egyptalandi um notkun ívermektín gegn Covid-19 en líkt og The Guardian hefur greint frá er enn þörf á frekari rannsóknum á notkun þessa lyfs. Upphaflega rannsóknin var tekin úr birtingu eftir ábendingar bárust um að niðurstaðan væri í mótsögn við frumgögnin. Einnig var höfundur rannsóknarinnar sakaður um ritstuld í inngangi ritgerðar sinnar.

Landlæknir kannar nú hversu yfirgripsmikið málið er varðandi ávísanir og afgreiðslu á lyfinu en Lyfjastofnun segir að sala heildsala á því hafi aukist.

Eftir að einstaklingur lagðist inn á sjúkrahús eftir að hafa innbyrt kremið var ákveðið að Z-merkja lyfið og þar með takmarka ávísun þess tímabundið við sérfræðinga í húðsjúkdómum. Þetta kom fram í sameiginlegri yfirlýsingu frá embætti Landlæknis og Lyfjastofnun.

Og hvers vegna á ekki að innbyrða krem?

„Krem er ekki ætlað til inntöku. Í því geta verið ýmsleg efni sem valda ertingu á slímhúð fyrir utan það að ef fólk er sækjast eftir innihaldsefninu þá virkar það með allt öðrum hætti á húð og ef það er innbrt. Í þessu tilfelli getur það verið hættulegt. Þannig kemur það til okkar,“ segir Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar.