„Ég glími enn við áfallastreitu og mikla vanlíðan vegna þessara atburða og það þarf lítið til að vanlíðanin rjúki upp,“ segir Guðmundur R. Guðlaugsson sem hefur stefnt íslenska ríkinu vegna atvinnumissis sem hann varð fyrir í kjölfar fjölda þvingunarráðstafana lögreglu sem beindust að honum að ósekju við rannsókn á fíkniefnamisferli sonar hans fyrir tæpum áratug. Hann krefst tæplega 60 milljóna í skaðabætur.

Árið 2017 voru Guðmundi dæmdar tvær milljónir í miskabætur vegna málsins, annars vegar vegna þvingunarráðstafana sem beindust að honum vegna afbrota sem sonur hans var grunaður um. Sími Guðmundar var hleraður, gerð var húsleit á heimili hans, í geymslu og bankahólfi hans án lagaheimildar Þá voru honum dæmdar bætur sérstaklega vegna vanvirðandi meðferðar sem hann mátti þola við óviðunandi aðstæður í gæsluvarðhaldi og einangrun í meira en 10 sólarhringa á lögreglustöðinni við Hlemm. Var meðferðin talin í andstöðu við 68. gr. stjórnarskrárinnar sem á að tryggja vernd gegn pyndingum og vanvirðandi meðferð og refsingu.

Málið sem Guðmundur rekur nú gegn ríkinu varðar atvinnumissi hans í kjölfar lögregluaðgerðanna en fimm dögum eftir að hann losnaði úr gæsluvarðhaldinu árið 2010 gerði vinnuveitandi hans starfslokasamning við hann. Guðmundur er menntaður kjötiðnaðarmaður og rekstrarfræðingur og gegndi stjórnendastöðu hjá framleiðslufyrirtæki þegar ósköpin dundu yfir. Hann hefur verið frá vinnu síðan.

Í vottorðum sálfræðings og sálfræðilæknis, sem lögð voru fram í fyrrnefndu bótamáli, kemur fram að einkenni sem Guðmundur sýni bendi til að hann þjáist af aðlögunarröskun sem rekja megi til gæsluvarðhaldsins. Að áliti dómkvaddra yfirmatsmanna frá nóvember 2015 þróaði Guðmundur með sér áfallastreituröskun í kjölfar aðgerðanna sem hann glími enn við. Sjúkrasaga hans bendi til þess að hann hafi verið viðkvæmur fyrir þó svo að eðli áfallsins og afleiðingar hafi skipt máli fyrir þróun á langvinnri röskun. Þrátt fyrir að meðferð á Reykjalundi hafi skilað nokkrum árangri séu ekki líkur til þess að stefnandi snúi aftur til starfa á almennum vinnumarkaði.

Munnlegur málflutningur í málinu er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur í næstu viku.