Óháði þingmaðurinn Andrés Ingi Jónsson hefur lagt inn fyrirspurnir til forsætisráðherra, utanríkisráðherra og samgönguráðherra um athugun á og viðbrögð við hugsanlegum njósnum Bandaríkjamanna í gegnum ljósleiðara.

Eftir að upp komst að leyniþjónusta danska hersins hafði gefið bandarísku leyniþjónustunni, CIA, aðgang að ljósleiðarakerfi hafi Bandaríkjamenn nýtt sér það til að njósna bæði í Danmörku og öðrum löndum. Til að mynda í Svíþjóð, Frakklandi og Hollandi. Andrés telur miklar líkur á að Ísland sé þarna með þar sem öll netumferð fari í gegnum danskt yfirráðasvæði.

„Ísland hefur aldrei verið undanskilið njósnum og þessar stóru leyniþjónustur njósna um alla,“ segir hann. Áhugi Bandaríkjamanna á Íslandi hefur aukist vegna umsvifa Rússa og Kínverja á norðurslóðum.

Andrés segir allt undir í þessu máli, ríkisleyndarmál, viðskiptaupplýsingar og persónulegar upplýsingar almennings. „Í Danmörku hefur sérstaklega verið njósnað um ráðuneyti og fyrirtæki sem tengjast varnarmálum,“ segir hann. „En það fer allt í gegnum þessa kapla.“

Gerir Andrés ekki ráð fyrir öðru en að staðan verði könnuð og að ráðherrar standi í lappirnar gagnvart þessum bandalagsþjóðum okkar. Í ljósi danskra frétta býst hann ekki við að samband Íslands og Danmerkur veikist vegna málsins. „Fyrstu fréttir benda til þess að Danir hafi ekki gert ráð fyrir að Bandaríkjamenn myndu njósna um þá sjálfa heldur hafi ætlað að fá aðstoð til að geta sjálfir stundað njósnir,“ segir Andrés. „Þetta hafi þá komið í bakið á þeim.“

Telur Andrés hér frekar um gáleysi Dana að ræða frekar en illan ásetning. „Það er mjög mikið gáleysi að hleypa utanaðkomandi aðila inn í svo mikilvæga innviði,“ segir hann.