Blaðamaður Fréttablaðsins, Kristlín Dís Ingilínardóttir, hefur verið krafin um þrjár milljónir í miskabætur vegna fimm ummæla sem birtust í frétt á vef Fréttablaðsins þann 3. júlí síðastliðinn. Eins er hún krafin um 250 þúsund krónur í lögmannskostnað.
Málið varðar frétt um Ingólf Þórarinsson tónlistarmann, sem er einnig þekktur sem Ingó Veðurguð, í tengslum við frásagnir kvenna um meint kynferðisofbeldi sem birtust á samfélagsmiðlinum Tik Tok.
Þess er krafist að Kristlín Dís biðji Ingólf Þórarinsson afsökunar, viðurkenni að ummælin séu röng og dragi þau til baka. Þá afsökunarbeiðni og leiðréttingu skuli birta á forsíðu vefs Fréttablaðsins og þess krafist að hún standi þar í minnst 48 klukkustundir.
Gefinn er frestur til að verða við þessum kröfum til 19. júlí næstkomandi.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Ingó, greindi frá því í kvöldfréttum RÚV í gærkvöldi að hann hyggðist kæra 32 fyrrnefndar frásagnir sem baráttuhópurinn Öfgar birtu á Tik Tok.
Þeir einstaklingar sem fá kröfubréf eru þau Edda Falak samfélagsmiðlastjarna og Crossfit-konu , Sindri Þór Sigríðarson Hilmarsson viðskiptafræðing, markaðsstjóra og baráttumann, Ólöf Tara Harðardóttir einkaþjálfara og meðlimur Öfga, Erla Dóra Magnúsdóttir, blaðamaður DV, og Kristlín Dís Ingilínardóttir, blaðamaður Fréttablaðsins.
Samkvæmt almennum hegningarlögum eru oftast höfðuð einkarefsimál um ærumeiðingar og sæta þær aðeins saksókn í sérstökum tilvikum, meðal annars þegar um nafnlaus ærumeiðandi ummæli er að ræða.