Lands­réttur hefur stað­fest dóm Héraðs­dóms Norður­lands eystra þess efnis að 17 ára gamalli stúlku verði gert að koma fyrir dóm til að gefa skýrslu í aðal­með­ferð máls vegna endur­tekinna kyn­ferðis­brota gegn henni þegar hún var 13 ára gömul.

Brotin áttu sér stað á sjö mánaða tíma­bili. Á­kærði hafði sam­ræði við stúlkuna í þó­nokkur skipti auk þess sem hann sendi henni myndir og mynd­bönd af honum á kyn­ferðis­legan hátt.

Í dóminum kemur fram að þegar vitna­listi barst dómara vegna aðal­með­ferðar sem á að hefjast í næstu viku hafi nafn hennar ekki verið á listanum og í kjöl­farið krafðist verjandi á­kærða þess að stúlkan kæmi fyrir dóm. Þrátt fyrir að stúlkan hafi farið í skýrslu­töku áður þegar málið var til rann­sóknar.

Verjandi stúlkunnar og réttar­gæslu­maður mót­mæltu þessu og vitnuðu meðal annars til þess að það myndi tefja bata stúlkunnar.

Sam­kvæmt megin­reglu laga er öllum sem náð hafa 15 ára aldri skylt að koma fyrir dóm sem vitni og vegna þess að stúlkan er orðin 17 ára gömul er það álit dómsins að hún eigi að koma aftur fyrir dóm til vitnis­burðar.