Guðsteinn Einarsson, fyrrverandi kaupfélagsstjóri Kaupfélags Borgfirðinga, hefur krafið sveitarstjórn Borgarbyggðar um skýrslu vegna framkvæmda við grunnskóla bæjarins. Sveitarstjórn hefur hafnað beiðni Guðsteins, að sögn vegna hugsanlegs dómsmáls, og mun málið fara fyrir úrskurðarnefnd.

„Það er ekki hægt að þegja yfir þessu. Stjórnendur í sveitarfélögum eiga ekki að komast upp með að fela sig á bak við svona skýrslur,“ segir Guðsteinn, sem er íbúi í Borgarnesi.

Skýrslan var unnin af eftirlitsmanni og skilað inn 5. nóvember og sveitarfélagið hafnaði beiðni Guðsteins 1. desember. Kærði hann þá ákvörðun til úrskurðarnefndar upplýsingamála og hefur sveitarfélagið frest til 22. desember til þess að svara.

Eftir að upp komu myglumál í grunnskólanum sumarið 2017 var ákveðið að fara í miklar endurbætur og stækkun skólans. Byggður var fjölnota salur, eldhús og sett nýtt þak, loftræstikerfi, rafmagns- og pípulagnir í hluta hússins.

Kostnaðaráætlun Borgarbyggðar var tæpar 690 milljónir króna en aðeins eitt tilboð barst, frá verktakanum Eiríki J. Ingólfssyni, upp á rúmar 818 milljónir. Samkvæmt ársreikningum árin 2017 til 2020 hefur bærinn greitt 1.449 milljónir í framkvæmdir á skólahúsnæðinu.

Í maí lýsti Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti bæjarstjórnar, því á bæjarstjórnarfundi að framkvæmdir hefðu farið töluvert fram úr áætlun og margar ástæður lægju að baki. Húsnæðið hefði verið í verra ástandi en búist var við og verið væri að greina galla í hönnun verksins. „Leggja hefði þurft meiri vinnu í fullnaðarhönnun áður en framkvæmd fór af stað, til að tryggja að kostnaðaráætlun væri ítarlegri og betur gert ráð fyrir ófyrirséðum kostnaði,“ bókaði Lilja.

Guðsteinn segir það augljóst mál að undirbúningurinn að verkefninu hefði ekki verið nógu góður. „Ef kostnaðaráætlunin hefði hljóðað upp á 1,5 milljarða í staðinn fyrir 700 milljónir hefði að öllum líkindum ekki verið farið af stað með verkefnið,“ segir hann. Segist hann draga það í efa að bærinn fari í málaferli við verktakann eða hönnuðinn.

Sjálfur segist hann enga beina aðkomu eiga að málinu, en vilji sýna bæjarstjórninni aðhald. „Bærinn hefur gefið það út að stjórnsýslan eigi að vera opin og upplýst. En þetta er í annað skiptið á þessu ári sem þeir segja skýrslu vera trúnaðarmál,“ segir hann.

Hin fyrri var skýrsla KPMG um fjármál bæjarins, sem Borgarbyggð sagði vinnugagn sem innihéldi persónugreinanlegar upplýsingar. Úrskurðarnefnd féllst ekki á þær röksemdir og úrskurðaði Guðsteini í vil í júlí síðastliðnum eftir að hann kærði.

Fréttablaðið hefur einnig beðið um skýrsluna um Grunnskólann í Borgarnesi. Þegar þetta er ritað hefur hún ekki verið afhent.