Riftunarmál þrotabús flugafgreiðslufélagsins ACE Handling gegn systurfélögunum ACE FBO og Global Fuel Iceland fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær. Um sitt hvort málið er að ræða en þau voru flutt saman, gegn ACE FBO vegna afsals á stigalyftu og Global Fuel vegna millifærslu í tengslum við tryggingar.

Málefni félaganna komust fyrst í kastljós fjölmiðla sumarið 2018, þegar DV greindi frá því að Sigurður Ingi Þórðarson, oft nefndur Siggi hakkari, væri orðinn framkvæmdastjóri og stjórnarformaður ACE Handling. Kæmist hann þar með inn á haftasvæði flugvalla á gestapassa þótt hann hefði dóma fyrir bæði kynferðisbrot og fjársvik á bakinu. Hann hafði aðsetur í Skýli 1 á Reykjavíkurflugvelli, í eigu Bjargfasts, en þar hafði trúfélagið Postulakirkjan einnig aðstöðu.

ACE Handling var í eigu Hilmars Ágústs Hilmarssonar eins og ACE FBO, Global Fuel Iceland og Bjargfastur. Samkvæmt Sveini Andra Sveinssyni, lögmanni þrotabúsins, á enn eftir að taka fyrir riftunarmál gegn Hilmari sjálfum en sættir hafa náðst í máli gegn Bjargfasti. Kröfurnar gegn ACE FBO eru um 5 milljónir króna og Global Fuel um 1,3 milljónir.

Árangurslaust fjárnám var gert í lok nóvember 2017 og óskað eftir gjaldþrotaskiptum um áramótin 2018. Eftir það voru ýmsar greiðslur framkvæmdar hjá félaginu. „Þetta er allt hið undarlegasta mál,“ segir Sveinn Andri.

Alls 17 tækjum í eigu ACE Handling var afsalað út úr félaginu eftir frestdag en vegna þess að 16 af þeim voru veðsett var aðeins krafist riftunar á sölunni á áðurnefndri stigalyftu. Bæði fyrrverandi framkvæmdastjóri og fyrrverandi fjármálastjóri vitnuðu um að Hilmar sjálfur hefði séð um að verðmeta tækin og gefið skýrslu um ástand þeirra á stjórnarfundum. Fjármálastjórinn, Brynhildur Gunnarsdóttir, sagði að eðlilegra hefði verið að fá faglegt mat en Hilmar hafi viljað sýna góða eiginfjárstöðu. Framkvæmdastjórinn, Alma Guðmundsdóttir, vitnaði um að hafa séð að ACE FBO hafi reynt að selja tækin til flugfélagsins Play á síðasta ári.

Krafa þrotabúsins er byggð á því verðmæti sem kom fram á tækjalista félagsins. Trausti Ágúst Hermannsson, lögmaður ACE FBO, sagði hins vegar að stigalyftan hefði verið keypt á mun lægri upphæð árið 2011 og verðmætið ekki aukist í íslenskum veðuraðstæðum á þessum tíma. Félagið hafi boðist til þess að skila tækinu, en þrotabúið ekki viljað taka við því. Spurði dómari málsins, Arnar Þór Jónsson, hvers vegna Hilmar sjálfur mætti ekki til þess að skýra verðlagninguna á listanum en því var svarað á þá leið að Hilmar hafi talið best að aðeins lögmaður væri viðstaddur.

Hitt málið lýtur að tryggingagreiðslum í gegnum tryggingamiðlunina Willis. Sá hátturinn var á hjá félögum Hilmars að Global Fuel safnaði greiðslum frá systurfélögum til að greiða miðluninni. Sagði Sveinn Andri að þrjár greiðslur frá ACE Handling til Global Fuel hefðu verið gjafagerningur þar sem iðgjöldin hefðu ekki verið gjaldfallin. Trausti sagði hins vegar að greiðslurnar hefðu verið gerðar til að tryggja rekstrarhagsmuni ACE Handling og hefðu endað hjá Willis. Hann gat ekki skýrt hvers vegna sumir reikninganna hefðu verið gerðir árið 2018, eftir ósk um gjaldþrotaskipti.

Búist er við dómsuppkvaðningu þann 16. júní næstkomandi.