Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að nú verði stjórnvöld að stíga fram af festu vegna áhrifa Covid faraldursins á vinnumarkaðinn og efnahagsástandið.

„Ég held að við séu á krítískum punktum núna hvað varðar atvinnulífið“, segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífisins. Halldór var gestur í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

„Takmarkanir hafa sjaldan verið meiri á öllum sviðum en akkúrat núna og þess sér auðvitað stað í öllum greinum atvinnulífsins,“ segir hann.

„Alþingi er að koma saman núna og við væntum þess að þar verði lögð fram veigamikil frumvörp sem muni styðja atvinnulífið. Það þarf að vinna þetta tiltölulega hratt því það líður að mánaðamótum og fjöldi fyrirtækja á mjög bágt, þrátt fyrir að það sé ekki ástæða til þess á þessum tímapunkti að örvænta,“ segir hann.

Halldór segir að nú ríði á að stjórnvöld stígi fram af festu og klári þessi mál fyrir mánaðamót og hann segist hafa væntingar um að það gerist.

„Það er alltaf verið að slá í og úr, fyrirsjánleikinn er enginn. Við getum ekki endalaust gengið á ríkissjóðs. Staða ríkissjóðs er allt önnur núna en hún var í upphafi faraldursins, skuldir ríkissjóðs hafa hækkað um helming,“ segir hann.

Halldór segir að horfa verði til þess að ekki verði búið við þetta ástand öllu lengur og að það verði að meta aðgerðirnar sem verið er að fara í út frá fleiri breytum en bara sóttvörnum, þar með talið vinnumarkaðinn og efnahagsástandið hverju sinni.

„Skammtímaaðgerðirnar eru þær að koma til móts við fyrirtækin og það þarf að ganga frá þeim fyrir mánaðamót. Næst skref hlýtur að vera að setja fram einhverja trúverðuga langtímaáætlun frá viku til viku og jafnvel innan nokkurra dag eins og gerðist í síðustu viku,“ segir hann.