Ástralar eru ævareiðir Kínverjum eftir að fulltrúi utanríkisráðuneytis Kína, Zhao Lijian, birti umdeilda mynd á Twitter-reikningi sínum. Um var að ræða sviðsetta mynd af áströlskum hermanni þar sem hann heldur hníf að hálsi afgansks drengs undir yfirskriftinni: „Ekki vera hræddur, við erum að koma á friði.“
Er um að ræða tilvísun í niðurstöður nýlegrar skýrslu þar sem haldið var fram að ástralskir hermenn hefðu drepið 39 óbreytta borgara og fanga í Afganistan. Hefur skýrslan vakið gríðarlega athygli í Ástralíu en þrettán hermönnum var vikið úr starfi eftir að hún var gerð opinber. Þá hefur ástralski herinn farið fram á að rannsakað verði hvort hermennirnir hafi gerst sekir um stríðsglæpi.
Auk myndbirtingarinnar skrifaði Lijian að hann væri miður sín yfir morðum ástralskra hermanna og að Kínverjar fordæmdu slíkar gjörðir og gerðu kröfu um að þeim sem bæru ábyrgð á þeim yrði refsað.
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, hefur krafist þess að Twitter fjarlægi myndina sem hann segir ósmekklega og falsaða. Þá fór hann einnig fram á að utanríkisráðuneyti Kína bæðist formlega afsökunar á birtingunni. „Kínversk stjórnvöld ættu að skammast sín fyrir þessa birtingu. Þetta lítillækkar þau í augum heimsins.“ Játaði forsætisráðherrann að það andaði köldu milli þjóðanna en að þetta væri ekki leiðin til að leysa deilurnar.
Samskipti Ástrala og Kínverja hafa verið kuldaleg undanfarið þrátt fyrir mikil viðskipti milli þjóðanna. Ástralar hafa á undanförnum árum gagnrýnt Kínverja fyrir hernaðarbrölt í Suður-Kínahafi, meðferð á Úígúrum, afskipti af Hong-Kong og Taívan og ýmis mannréttindabrot. Í apríl voru Ástralar í hópi þjóða sem kölluðu eftir alþjóðlegri rannsókn á uppruna kórónaveirunnar sem féll í grýttan jarðveg hjá kínverskum yfirvöldum. Svöruðu Kínverjar með því að setja margs konar hömlur á innflutning ástralskra matvæla til Kína, til að mynda hærri tolla og margs konar tafir við innflutning á landamærum. Þrátt fyrir erjurnar voru Kínverjar og Ástralar í hópi fimmtán ríkja Austur-Asíu og Eyjaálfu sem skrifuðu undir gríðarstóran fríverslunarsamning í byrjun nóvember.
Um miðjan nóvember skrifuðu Ástralar undir varnarsamning við Japan sem Kínverjar líta á sem beina ögrun. Kínverjar líta á Ástrali sem eina helstu bandamenn Bandaríkjamanna í Vestur-Kyrrahafi og töldu þeir að samningurinn við Japani væri að undirlagi Bandaríkjamanna. „Ástralar taka síendurteknar ákvarðanir sem ganga gegn hagsmunum Kína, sem er ástæðan fyrir hratt hnignandi samskiptum þjóðanna á þessum erfiðu tímum,“ sagði áðurnefndur Lijian á blaðamannafundi við það tækifæri og sagði að ábyrgðin á versnandi samskiptum ríkjanna lægi hjá Ástralíu.