Ástralar eru æva­reiðir Kín­verjum eftir að full­trúi utan­ríkis­ráðu­neytis Kína, Zhao Lijian, birti um­deilda mynd á Twitter-reikningi sínum. Um var að ræða svið­setta mynd af áströlskum her­manni þar sem hann heldur hníf að hálsi af­gansks drengs undir yfir­skriftinni: „Ekki vera hræddur, við erum að koma á friði.“

Er um að ræða til­vísun í niður­stöður ný­legrar skýrslu þar sem haldið var fram að ástralskir her­menn hefðu drepið 39 ó­breytta borgara og fanga í Afgan­istan. Hefur skýrslan vakið gríðar­lega at­hygli í Ástralíu en þrettán her­mönnum var vikið úr starfi eftir að hún var gerð opin­ber. Þá hefur ástralski herinn farið fram á að rann­sakað verði hvort her­mennirnir hafi gerst sekir um stríðs­glæpi.

Auk mynd­birtingarinnar skrifaði Lijian að hann væri miður sín yfir morðum ástralskra her­manna og að Kín­verjar for­dæmdu slíkar gjörðir og gerðu kröfu um að þeim sem bæru á­byrgð á þeim yrði refsað.

Scott Morri­son, for­sætis­ráð­herra Ástralíu, hefur krafist þess að Twitter fjar­lægi myndina sem hann segir ó­smekk­lega og falsaða. Þá fór hann einnig fram á að utan­ríkis­ráðu­neyti Kína bæðist form­lega af­sökunar á birtingunni. „Kín­versk stjórn­völd ættu að skammast sín fyrir þessa birtingu. Þetta lítil­lækkar þau í augum heimsins.“ Játaði for­sætis­ráð­herrann að það andaði köldu milli þjóðanna en að þetta væri ekki leiðin til að leysa deilurnar.

Sam­skipti Ástrala og Kín­verja hafa verið kulda­leg undan­farið þrátt fyrir mikil við­skipti milli þjóðanna. Ástralar hafa á undan­förnum árum gagn­rýnt Kín­verja fyrir hernaðar­brölt í Suður-Kína­hafi, með­ferð á Úígúrum, af­skipti af Hong-Kong og Taí­van og ýmis mann­réttinda­brot. Í apríl voru Ástralar í hópi þjóða sem kölluðu eftir al­þjóð­legri rann­sókn á upp­runa kóróna­veirunnar sem féll í grýttan jarð­veg hjá kín­verskum yfir­völdum. Svöruðu Kín­verjar með því að setja margs konar hömlur á inn­flutning ástralskra mat­væla til Kína, til að mynda hærri tolla og margs konar tafir við inn­flutning á landa­mærum. Þrátt fyrir erjurnar voru Kín­verjar og Ástralar í hópi fimm­tán ríkja Austur-Asíu og Eyja­álfu sem skrifuðu undir gríðar­stóran frí­verslunar­samning í byrjun nóvember.

Um miðjan nóvember skrifuðu Ástralar undir varnar­samning við Japan sem Kín­verjar líta á sem beina ögrun. Kín­verjar líta á Ástrali sem eina helstu banda­menn Banda­ríkja­manna í Vestur-Kyrra­hafi og töldu þeir að samningurinn við Japani væri að undir­lagi Banda­ríkja­manna. „Ástralar taka sí­endur­teknar á­kvarðanir sem ganga gegn hags­munum Kína, sem er á­stæðan fyrir hratt hnignandi sam­skiptum þjóðanna á þessum erfiðu tímum,“ sagði áður­nefndur Lijian á blaða­manna­fundi við það tæki­færi og sagði að á­byrgðin á versnandi sam­skiptum ríkjanna lægi hjá Ástralíu.