Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, mun fara fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir meintum hryðjuverkamönnum á morgun þegar fyrri gæsluvarðhaldsúrskurður rennur úr gildi.
Mennirnir tveir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan þann 21. september síðastliðinn þegar þeir voru handteknir í umfangsmiklum aðgerðum sérsveitarinnar.
Lögum samkvæmt má ekki halda fólki í gæsluvarðhaldi lengur en í tólf vikur án ákæru en mennirnir hafa nú setið í varðhaldi í sjö vikur.
Greint hefur verið frá því að lögreglan, þingmenn Pírata, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins hafi verið möguleg skotmörk mannanna.
Þá þurfti ríkislögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, að segja sig frá málinu vegna fjölskyldutengsla en líkt og fram hefur komið hefur nafn föður hennar, Guðjóns Valdimarssonar, komið fram vegna málsins.
Guðjón var yfirheyrður á heimili sínu vegna málsins í lok september. Hann er grunaður um vopnalagabrot og talið er að sakborningar málsins hafi verið í samskiptum við hann.