Danskur karlmaður á þrítugsaldri var bundinn niður í rúm í þrettán mánuði á geðdeild í Álaborg. Maðurinn er með geðhvarfasýki en hann hefur nú farið fram á 12 milljónir danskra króna, jafnvirði 250 milljóna íslenskra króna, í skaðabætur.

Danska ríkisútvarpið, DR, greinir frá málinu. Þar er rætt við bróður mannsins, Mohammed Makki, sem segir frá því að það hafi verið mjög erfitt að horfa upp á bróður sinn í þessum aðstæðum.

Bræðurnir saman.
Ljósmynd/DanmarksRadio

„Ég hef séð hann algjörlega auðmýktan og niðurlægðan sem manneskju, oft grátandi, þunglyndan og þreyttan á lífinu,“ segir Mohammed.

Hann lýsir því hvernig bróðir sinn hafi tvöfaldast að þyngd við rúmleguna, ekki farið í bað mánuðum saman og átt erfitt með að ganga því vöðvar hans hafi rýrnað.

„Hann segir sér hafa verið misþyrmt. Stutta svarið er að hann var í stórri, svartri holu, liggjandi í helvíti,“ segir Mohammed.

Lögmaður mannsins segir í samtali við DR að upphæð bótakröfunnar taki mið af máli við Mannréttindadómstólinn þar sem manni sem bundinn var niður í minna en sólarhring hafi verið dæmdar jafnvirði ríflega 3,1 milljónar íslenskra króna í bætur.

Plássleysið réttlæti ekki meðferðina

Maðurinn hafði verið metinn það hættulegur vegna sjúkdóms síns að hann hefði átt að fá meðferð á stofnun í Slagelse í Danmörku þar sem tekið er á móti þeim sjúklingum sem eru metnir mest hættulegir vegna geðsjúkdóma. Ekki var pláss á stofnuninni þegar maðurinn var lagður inn og sökum plássleysis var hann því vistaður á réttargeðdeild í Álaborg. Sérstök kvörtunarnefnd fyrir geðsjúka hefur þegar sagt að meðferðin á manninum fari meðal annars gegn Mannréttindasáttmála Evrópu.

„Plássleysi réttlætir það ekki að fólk sé bundið niður mánuðum saman. Þetta hefur víðtækar afleiðingar fyrir þá sem verða fyrir slíkri meðferð, bæði andlega og líkamlega," segir Nikolaj Nielsen, yfirmaður hjá Mannréttindastofnun.

Samkvæmt Mannréttindastofnun ætti slíkum aðferðum ekki að vera beitt í landi eins og Danmörku. Allra síst vegna skorts á fjármagni á stofnunum sem geti sinnt sjúklingum eins og bróður Mohammed. Hann telur jafnframt að það ætti að hætta alfarið að binda sjúklinga niður í rúm.