Tólf ára sænsk stúlka lést í gær eftir að hafa orðið fyrir skoti þegar tveir glæpa­hópar tókust á í Nors­borg í Suður-Stokk­hólmi en málið hefur vakið mikla at­hygli í Sví­þjóð. Í­búar hafa nú krafist þess að lög­regla taki enn frekar á of­beldis­fullum glæpum á svæðinu.

Að því er kemur fram í frétt SVT um málið hafði stúlkan verið úti að ganga með hundinn sinn ná­lægt svæðinu þegar lög­reglu barst til­kynning um skot­há­vaða. Þegar lög­regla mætti á svæðið fannst stúlkan með skot­sár og var í kjöl­farið flutt á spítala þar sem hún lést af sárum sínum.

Fjöldi fólks hefur nú myndað hjarta með blómum og kertum við bensín­stöð þar sem stúlkan var skotin. Fjöl­skylda stúlkunnar sagði í sam­tali við SVT að um væri að ræða hrika­legan harm­leik og furðuðu sig á því hvernig svona gæti gerst.

Skotárásin átti sér stað nálægt bensínstöð á svæðinu.
Fréttablaðið/AFP

Erfitt að taka á málinu

Að sögn Manne Ger­ell, dósents í af­brota­fræði við há­skólann í Mal­mö, eru glæpa­sam­tök mjög virk í Nors­borg og því eru of­beldis­fullir glæpir al­gengari þar en annars staðar í Sví­þjóð. Hún segir að það sé erfitt að koma í veg fyrir þá þróun sem hefur átt sér stað, sér­stak­lega þar sem erfitt er að sanna glæpina í mörgum til­fellum.

Stefan Hector, að­gerðar­stjóri hjá að­gerða­stjórnunar­deildinni NOA, sagði í við­tali í sjón­varps­þættinum Aktu­elt að þrátt fyrir að lög­regla hafi ein­beitt sér að því að ná tökum á of­beldis­fullum glæpum síðustu ár að þá sé lítill munur á fjölda skot­á­rása milli ára þar sem þróunin innan glæpa­sam­fé­lagsins sé hröð.

Alls hafa tuttugu manns látist í 163 skot­á­rásum það sem af er ári í Sví­þjóð en til saman­burðar létust 42 í 334 skot­á­rásum árinu áður. Hector sagðist þó vera bjart­sýnn að hægt væri að ná tökum á stöðunni en til þess þyrftu allir að standa saman.