Allt tölvu­kerfi há­tækni­fyrir­tækis í Garða­bæ hefur verið tekið í gíslingu af rúss­neskum tölvu­þrjótum, kemur fram í frétt Rúv. Þrjótarnir krefjast 26 milljóna króna í lausnargjald. Verði þær ekki greiddar í dag tvö­faldast upp­hæðin. Eig­andi fyrir­tækisins segir ekki koma til greina að borga.

Inn­brotið í tölvu­kerfið átti sér stað klukkan hálf þrjú að­fara­nótt föstu­dags. Fyrir­tækið sér­hæfir sig í að skera og beygja stál með tölvu­stýrðum vélum og vinnur fyrir ýmis há­tækni­fyrir­tæki.

Á föstu­dags­morgun var búið að dul­kóða allar skrár fyrir­tækisins og starfs­menn höfðu því ekki lengur að­gang að þeim. Ekki hefur verið hægt að nota fram­leiðslu­vélarnar, nota bók­halds­kerfið eða nokkuð annað í tölvu­kerfi fyrir­tækisins.

Þeir sem standa að baki á­rásinni höfðu sam­band og báðu um 26 milljónir króna, eða tvö hundruð þúsund dollara, fyrir miðnætti í kvöld annars muni upp­hæðin tvö­faldast.

Fyrir­tækið fékk að­stoð frá Europol sem segir þetta vera þekkta aðila frá Rúss­landi sem standa að baki á­rásinni.

Að­eins er búið að læsa gögnum fyrir­tækisins en ekki stela þeim, segir Grétar Jóns­son fram­kvæmda­stjóri Geisla­tækni, við frétta­stofu Rúv.