Stjórnmálamenn, fjölmiðlamenn og fræðimenn eru meðal þeirra sem hafa kallað eftir því að Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, verði aftur ákærður til embættismissis (e. impeached) fyrir hans hlutverk í óeirðunum í Washington, D.C., í dag. Líkt og flestum ætti að vera kunnugt var Trump sýknaður innan öldungadeildarinnar af ákærum til embættismissis fyrr á árinu.

Fjöldi fólks kom saman í dag til þess að mótmæla niðurstöðum kosninganna en þingið átti í dag að telja atkvæði kjörmanna og staðfesta kjör Joes Biden. Trump flutti fyrr í dag ræðu við Hvíta húsið þar sem hann hvatti mótmælendur til að arka að þinghúsinu og mótmæla, sem þeir og gerðu.

Umræður voru í gangi innan þingsins þar sem þingmenn Repúblikana höfðu mótmælt niðurstöðum kosninganna í Arizona en stöðva þurfti þingmanninn James Lankford í miðri ræðu þar sem mótmælendur höfðu komist inn í bygginguna. Þingmenn voru í kjölfarið fluttir í flýti úr þingsalnum.

Lítið tjáð sig

Donald Trump hefur lítið tjáð sig um mótmælin en fljótlega eftir að þinghúsið var rýmt snerist hann gegn varaforseta sínum, Mike Pence, þar sem hann hefur ekki neitað að staðfesta úrslit forsetakosninganna. Skömmu síðar sagði hann stuðningsmönnum sínum að virða lögreglu og mótmæla friðsamlega en hefur þó ekki fordæmt þá sem brutust inn í þinghúsið.

Pence aftur á móti, sem var fluttur í burtu í flýti og fluttur á öruggan stað eftir að mótmælendur komust inn í bygginguna, hefur nú kallað eftir því að fólk fari að tilmælum lögreglu og yfirgefi bygginguna eins og skot. Þá sagði hann að allir þeir sem áttu þátt í óeirðunum verði sóttir til saka.

Löng nótt framundan

Enn eru miklar óeirðir innan þinghússins og er óljóst hversu margir eru enn inni. Búið er að flytja flesta þingmenn og fjölmiðlamenn á öruggan stað og hefur verið kallað eftir liðsauka frá þjóðvarðliðinu og heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna.

Um leið og það þykir öruggt munu báðar deildir þingsins koma saman til að fara yfir atkvæði kjörmanna en löng nótt er framundan hjá þingmönnum. Óljóst er hvort það takist að klára málið fyrr en á morgun.