Fyrrum boxarinn og á­hrifa­valdurinn Andrew Tate og bróðir hans Tristan mættu fyrir dómara í Rúmeníu í dag. Lög­menn bræðranna krefjast þess að þeim verði sleppt úr gæslu­varð­haldi.

Tate bræðurnir hafa verið í gæslu­varð­haldi síðan 29. desember, vegna gruns um man­sal og skipu­lagða glæpa­starf­semi um að mis­nota konur.

Á­samt bræðrunum voru tvær rúmenskar konur hand­teknar. Öll hafa þau neitað sök en á­kæru­valdið segir bræðurna hafa náð að blekkja konurnar til sín með því að tál­draga þær og ljúga að þeir vildu vera með þeim í sam­bandi.

Sak­sóknari segir að konurnar voru neyddar af bræðrunum til þess að fram­leiða klám­fengt efni. Andrew er einnig gefið að sök að hafa nauðgað einni konunni síðast­liðinn mars.

Fyrr í mánuðinum á­kvað dóm­stóll í Rúmeníu að fram­lengja gæslu­varð­haldið yfir fjór­menningunum. Lög­menn bræðranna og kvennanna tveggja mættu fyrir dóm­stólinn í dag og kröfðust þess að þeim yrði sleppt úr haldi, þar sem ekki væru til næg sönnunar­gögn til að halda þeim.

Þá vilja lög­menn bræðranna að Rúmensk yfir­völd skili lúxus­bif­reiðum, lausa­fé og öðrum munum sem lög­regla lagði hald á við hand­tökuna.