Fyrrum boxarinn og áhrifavaldurinn Andrew Tate og bróðir hans Tristan mættu fyrir dómara í Rúmeníu í dag. Lögmenn bræðranna krefjast þess að þeim verði sleppt úr gæsluvarðhaldi.
Tate bræðurnir hafa verið í gæsluvarðhaldi síðan 29. desember, vegna gruns um mansal og skipulagða glæpastarfsemi um að misnota konur.
Ásamt bræðrunum voru tvær rúmenskar konur handteknar. Öll hafa þau neitað sök en ákæruvaldið segir bræðurna hafa náð að blekkja konurnar til sín með því að táldraga þær og ljúga að þeir vildu vera með þeim í sambandi.
Saksóknari segir að konurnar voru neyddar af bræðrunum til þess að framleiða klámfengt efni. Andrew er einnig gefið að sök að hafa nauðgað einni konunni síðastliðinn mars.
Fyrr í mánuðinum ákvað dómstóll í Rúmeníu að framlengja gæsluvarðhaldið yfir fjórmenningunum. Lögmenn bræðranna og kvennanna tveggja mættu fyrir dómstólinn í dag og kröfðust þess að þeim yrði sleppt úr haldi, þar sem ekki væru til næg sönnunargögn til að halda þeim.
Þá vilja lögmenn bræðranna að Rúmensk yfirvöld skili lúxusbifreiðum, lausafé og öðrum munum sem lögregla lagði hald á við handtökuna.