Sam O'Donnell, blaða­manni á Grapevine, barst í vikunni bréf sem í var krafa frá Út­lendinga­stofnun þar sem óskað var eftir myndum af honum og eigin­konu hans, Hörpu Lind, „við há­tíðar­höld, í ferða­lögum sem og úr hvers­dags­legu lífi þeirra á mis­munandi tímum.“ Vara­þing­maður furðar sig á reglu­gerðinni sem heimilar stofnuninni þetta.

Sam, sem upp­runa­lega er frá Banda­ríkjunum og búið hefur hér á landi síðan árið 2018, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að að bréfið hafi komið honum og Hörpu spánskt fyrir sjónir. Hann hafði ný­verið sótt um endur­nýjun dvalar­leyfis og hélt fyrst að í bréfinu væri að finna stað­festingu á því.

„Okkur fannst þetta ansi undar­leg beiðni. Við höfðum beðið eftir því að fá að heyra í þeim, þar sem við sóttum um dvalar­leyfið árið 2018 og það tók sinn tíma. Svo sóttum við um endur­nýjun þess í nóvember og bjuggumst við að heyra í þeim snemma í janúar eða miðjan janúar,“ segir Sam.

„Svo opnuðum við bréfið og þá kom í ljós að þau vildu bara frekari upp­lýsingar,“ segir Sam. Hann segir að þau hafi fyrir löngu veitt stofnuninni hjú­skapar­vott­orð, sem þau hafi haldið að væri nóg.

„En þannig við á­kváðum bara að finna alveg helling af myndum af okkur og sendum þeim um fjöru­tíu myndir og sér­stak­lega form­legt bréf til baka í tölvu­pósti. Ég var að fá stað­festingu núna á því að þau hafi fengið það og veit svo sem ekkert hvort þau hafi skoðað myndirnar.“

Hann segir ferlið við flutningana hingað hafa verið stressandi. „Rök­rétta hliðin á mér hugsar bara að ég hafi gert þetta allt rétt og það sé engin á­stæða fyrir þau til að hafna mér en hin hliðin veltir fyrir sér hvað þau muni biðja mig um næst? Þetta er eigin­lega kvíða­valdandi,“ segir Sam.

Gísli var áður félagi í VG. Hann furðar sig á reglugerðinni og veltir fyrir sér hvar frjálslyndið sé.
Mynd/Skjáskot

Reglu­gerðin um þetta sett í maí 2017

Gísli Garðars­son, vara­þing­maður VG, og fyrrverandi meðlimur í flokknum, vekur at­hygli á málinu á sam­fé­lags­miðlinum Twitter. Þar spyr hann Katrínu Jakobs­dóttur, for­sætis­ráð­herra, Bjarna Bene­dikts­son, for­mann Sjálf­stæðis­flokksins, Ás­laugu Örnu Sigur­björns­dóttur, dóms­mála­ráð­herra og Sig­ríði Á. Ander­sen, for­mann utan­ríkis­mála­nefndar, hvort þau myndu vilja senda ríkis­stofnunum fjöl­skyldu­myndir úr einka­safni.

Þar bendir hann á að reglu­gerðin um þetta hafi verið sett á í tíð Sig­ríðar í dóms­mála­ráðu­neytinu, og í tíð ríkis­stjórnar Sjálf­stæðis­flokksins, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar. Henni hafi svo verið breytt þrí­vegis á nú­verandi kjör­tíma­bili.

Í reglu­gerðinni, sem finna má á vefnum, segir meðal annars: „Þá getur stofnunin krafist ljós­mynda, greinar­gerða, gagna um fram­færslu og saka­vott­orðs í þeim til­vikum sem hún metur það nauð­syn­legt.“

„Er þetta frjáls­lyndið og ein­stak­lings­frelsið? Tak­mörkunin á inn­gripum ríkisins í líf & einka­hagi fólks @sjalf­sta­edis?“ skrifar hann. Ýmsir tjá sig við færslu Gísla og lýsa svipuðum reynslu­sögum.

„Við erum ein­mitt að ganga í gegnum þetta allt núna þegar maðurinn minn er að sækja um ríkis­borgara­rétt. Þetta er svo mann­fjand­sam­legt og ömur­legt að það nær ekki nokkurri átt. Ljósið við endan á göngunum er vonin um að þetta klárist og við þurfum aldrei að tala við UTL aftur,“ skrifar notandinn Asdis­Virk.

„Shit ég man þegar útl bað um svona myndir af okkur. Þetta ferli er svo ó­geðs­lega absúrd og stressandi,“ skrifar Þórunn Ólafs­dóttir, sem sjálf hefur verið virk í mál­efnum flótta­fólks og hælis­leit­enda.