Stjórnvöld víða um heim fordæma aðgerðir rússneskra yfirvalda og hafa krafist þess að rússneski stjórnar­and­stæðingurinn, Alexei Naval­ny, verði látinn laus úr haldi.

Navalny var handtekinn stuttu eftir komu til Mosku í gær. Hann var að snúa aftur heim til Rússlands frá Þýskalandi, fimm mánuðum eftir að reynt var að eitra honum. Þýskir læknar eru vissir um að eitrað hafi verið fyrir Navalny en rúss­nesk yfir­völd segjast ekkert kannast við að standa að baki til­ræðinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra sagðist vera brugðið vegna handtökunnar á Twitter í gær og og hvatti yfir­völd í Rúss­landi til að sleppa honum lausum án tafar.

Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir Bandaríkjastjórn fordæma handtöku hans og lýsir yfir þungum áhyggjum. Þá hefur Joe Biden, verðandi Bandaríkjaforseti, einnig tjáð sig um málið og krafist þess að hann verði látinn laus.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, hefur kallað eftir tafarlausri lausn hans og Eystrasaltsríkin sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem handtakan er sögð algjörlega óásættanleg.Breska ríkisstjórnin lýsir yfir þungum áhyggjum af handtöku Navalny í yfirlýsingu og krafist þess að Rússar láti hann lausan.

Áður en Naval­ny hélt af stað frá Þýska­landi til Rúss­lands í gær sagðist hann sann­færður um að allt færi vel og hann væri á­nægður að snúa aftur til heima­landsins.

Á­stæða þess að hann á hand­töku yfir höfði sér er sú að hann átti að gefa sig fram við yfir­völd í desember síðast­liðnum vegna skil­orðs­bundins dóms sem hann hafði hlotið fyrir fjár­drátt. Eðli málsins sam­kvæmt gaf hann sig ekki fram, enda staddur í Þýska­landi, og telja sak­sóknarar að með því hafi hann rofið skil­orð.

Þá stendur yfir rann­sókn á öðrum meintum fjár­drætti, en sjálfur segir Naval­ny að þessi af­skipti yfir­valda eigi sér pólitískar rætur og að Vla­dimír Pútín reyni að gera allt til að þagga niður í honum.