Demókratinn Jerry Nadler, formaður dómsmálanefndar Bandaríkjaþings, hefur krafist þess fyrir dómi að þingmenn fái skýrslu sérstaks saksóknara um áhrif Rússa á forsetakosningarnar 2016 óritskoðaða. Hann segir að skýrslan eins og hún hafi verið birt skilji þingið eftir í myrkri.

Nadler er þeirrar skoðunar að þingmenn eigi rétt á að fá fulla útgáfu af skýrslunni. BBC greinir frá þessu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að skýrslan hreinsi hann af öllum ásökunum um að hann hafi átt í óeðlilegum samskiptum við Rússa í aðdraganda kosninganna. Demókratar hafa á hinn bóginn boðað að þeir muni halda áfram að eltast við Trump í þessu samhengi.

Skýrslan er afsprengi 22 mánaða vinnu sem Robert Mueller, sérstakur saksóknari Alríkislögreglunnar, hefur leitt. Í skýrslunni segir að ekki hafi tekist að sanna samstarf framboðs Trumps við Rússa en gefið er til kynna að Trump hafi hindrað framgang réttvísinnar við rannsókn málsins, án þess að það sé fullyrt.

Nadlar segir að í skýrsluni sé búið að taka út langa kafla sem virðast skipta höfuðmáli þegar kemur að því að skýra hvernig Mueller og félagar komust að niðurstöðu.