Aðalmeðferð í Bitcoin málinu svokallaða fer nú fram í Landsrétti. Tvö ár eru síðan dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjaness, en þá voru sjö mennn sakfelldir fyrir innbrot og tilraunir til innbrota í nokkur gagnaver og þjófnað á verðmætum tölvubúnaði.

Sindri Þór Stefáns­son fékk þyngsta dóminn, fjögurra og hálfs árs fangelsi, en dómurinn taldi sannað að hann hefði staðið að skipulagningu brotana.

Matthías Jón Karlsson fékk næstþyngsta dóminn, eða tveggja og hálfs árs fangelsi.

Þá hlaut Hafþór Logi Hlynsson tuttugu mánaða dóm og Pétur Stanislav Karlsson og Viktor Ingi Jónasson átján mánaða fangelsisdóm.

Ívar Gylfason, sem starfaði sem öryggisvörður hjá Öryggismiðstöðinni þegar brotin voru framin, var dæmdur í fimmtán mánaða skilorðsbundið fangelsi og Kjartan Sveinarsson, sem kom á sambandi milli dómfelldu og Ívars fékk 6 mánaða dóm.

Öllum sjö var gert að greiða eigendum þess sem stolið var skaðabætur.

Verðmæti þýfisins hljóp á hundruðum milljóna

Verð­mæti tölvanna sem stolið var er talið hlaupa á hundruðum milljóna en vélarnar voru sér­hannaðar til að grafa eftir bitcoin. Vélunum var stolið úr gagna­verum bæði í Reykja­nes­bæ og Borgar­byggð í þremur inn­brotum sem framin voru á tíma­bilinu desember 2017 til síðari hluta janúar 2018. 

Sindri Þór játaði aðild sína að þjófnuðum úr gagna­verum í Borgar­nesi og Reykja­nesi. Hann neitaði hins vegar að hafa skipu­lagt og lagt á ráðin um brotin.

Matthías Jón Karlsson játaði að hafa farið inn í gagnaver Advania í Reykjanesbæ, en neitaði að hafa undirbúið, lagt á ráðin og skipulagt bæði þann þjófnað og önnur brot sem talin eru upp í ákæru. Aðrir ákærðu neituðu sök í málinu en einungis fimm af sjö áfrýjuðu málinu til Landsréttar. Ívar Gylfason og Kjartan Sveinarsson ákváðu að una dómi héraðsdóms.

Samkvæmt almennum hegningarlögum getur refsing fyrir þjófnað að hámarki verið sex ára fangelsi. Ákæruvald fyrir slík brot er ekki i höndum héraðssaksóknara, sem fer með alvarlegustu afbrot, heldur í höndum lögreglustjóra og það var lögreglustjórinn á suðurnesjum sem fór með saksókn í málinu.

Leitin að þýfinu teygði sig til Kína

Rannsókn málsins var gríðarlega umfangsmikil og leitin að hinum stolnu tölvum teygt sig alla leið til Kína þar sem 600 tölvur voru í ó­skilum fyrr í vor. Sú leit hefur enn engan árangur borið og tölvunar enn ó­fundnar.

Af aðalmeðferð málsins í héraði var ljóst að innbrotin voru ítarlega skipulögð, en ákærðu héldu því fram í skýrslutökum að útlendingur hefði staðið að skipulagningunni.

Vörðurinn svaf stærsta innbrotið af sér

Þá vann með þjófunum að öryggisvörðurinn sem var á vakt kvöldið sem stærsta og flóknasta innbrotið var framið, fór veikur heim á næturvaktinni og svaf af sér innbrotið á sófanum heima í stofu.

Hann sagði fyrir dómi að samkvæmt verklagsreglum ætti að fara fjórar eftirlitsferðir í gagnaver Advanía á nóttu. Ekki hafi hins vegar verið farnar fleiri ferðir þessa nótt en þá sem hann fór klukkan tíu umrætt kvöld.  

„Ég fór heim og á klósettið, og lagðist upp í sófa og ætlaði að hringja í yfirmann minn og láta vita en datt bara út. Vaknaði svo um hálf sjö og fattaði þá að ég hafi sofnað.“

„Ég fór heim og á klósettið, og lagðist upp í sófa og ætlaði að hringja í yfirmann minn og láta vita en datt bara út. Vaknaði svo um hálf sjö og fattaði þá að ég hafi sofnað. Það voru engin útköll um nóttina bara þessar vaktferðir sem ég hafði ekki mætt í,“ sagði öryggisvörðurinn fyrir dómi.

Þegar hann vaknaði að morgni hafi hann farið út í bíl til að sækja þann starfsmann sem var að fara á vakt. Þá hafi allt loft verið farið úr dekkjum bílsins. Eftir að ljóst varð að skorið hafi verið á dekkin hafi verið hringt á lögregluna en bílaleigan sem átti bílinn svo sótt bílinn með kranabíl.

Sindra falið að lokka vörðinn til Grindavíkur

Í skýrslu Sindra Þórs kom fram að honum hafi ekki verið ætlað að taka þátt í sjálfu innbrotinu í gagnaver Advania heldur hefði hann haft önnur hlutverk með höndum. Honum hafi verið ætlað að fara til Grindavíkur og efna þar til vandræða til að laða vaktmann Öryggismiðstöðvarinnar þangað og draga athygli þannig frá gagnaverinu en upplýsingar hafi legið fyrir um að sama vakt væri í Grindavík og við gagnaverið.

Læti hans í Grindavík hafi hins vegar ekki vakið nein viðbrögð hjá Öryggismiðstöðinni og hann því verið kallaður til Reykjanesbæjar til að vakta bíl þess öryggisvarðar sem var á vakt og gera innbrotsmönnum viðvart ef vörðurinn færi á stjá.

Allt hafi hins vegar verið með kyrrum kjörum hjá öryggisverðinum þrátt fyrir ólæti í Grindavík og að á ábyrgðarsvæði hans væri verið að fremja eitt stærsta þjófnaðarbrot Íslandssögunnar.

Rússar liðu fyrir rannsókn málsins

Nokkrir urðu fyrir töluverðum skakkaföllum vegna rannsóknar lögreglu, einkum vegna leitar að þýfinu, þar á meðal rússneskt par sem ráku lítið reka lítið gagnaver í Vestmannaeyjum. Lögreglan braut sér leið inn í gagnaver þeirra um það bil mánuði eftir gagnaversinnbrotin og eyðilögðu 20 bitcointölvur. Þau sættu bæði farbanni í kjölfarið.

Bitcoin málið vakti ekki síst athygli landsmanna og raunar langt út fyrir landsteinanna vegna æsilegs flótta Sindra Þórs Stefánssonar úr fangelsinu að Sogni meðan málið var til rannsóknar.

Æsilegur flótti

Sindri komst út um glugga á fangelsinu og bar um að hafa hringt á leigubíl frá fangelsinu. Ferðinni var heitið til Keflavíkur þaðan sem hann flaug til Svíþjóðar í sömu vél og forsætisráðherra sem var bókuð á ráðstefnu í Stokkhólmi. Sindri hafði pantað flugmiða á nafni annars manns um klukkustund áður en hann yfirgaf Sogn.

Strax upphófst mikil leit að Sindra og grunur um að hann hefði komist úr landi var fljótt staðfestur. Þremur dögum eftir flugið til Svíþjóðar lofaði Sindri að koma fljótlega heim, í yfirlýsingu sem barst Fréttablaðinu. Hann lét á sér skilja að hann teldi sig ekki hafa brotið lög með brottför sinni enda gæsluvarðhald yfir honum útrunnið á þeirri stundu sem hann yfirgaf fangelsið.

„Mér hefur ekki verið birt eitt einasta sönnunargagn og mér var ógnað og hótað lengri einangrun meðan einangrun átti sér stað. Mér var margoft sagt að ég fengi að ganga út ef ég myndi staðsetja svokallað þýfi sem ég er grunaður um að hafa stolið. Ég var látinn dúsa í einangrun, sem refsing, því þeir fundu ekki þetta þýfi. Án sönnunar,“ sagði í yfirlýsingunni.

„Mér var margoft sagt að ég fengi að ganga út ef ég myndi staðsetja svokallað þýfi sem ég er grunaður um að hafa stolið.“

Mikil lögfræðileg rekistefna upphófst í kjölfarið og lauk með því að víst hafi Sindri verið frjáls ferða sinna þar sem gæsluvarðhald hafi runnið út áður en dómari kvað upp nýjan úrskurð um framhald.

Dómsmálaráðherra lýsti því yfir að það væri ekki í lagi að menn væru frelsissviptir hér án dóms og laga og greindi frá því að ríkissaksóknari myndi eiga samráð við dómstólasýsluna um betri verkferla vegna krafna um framlengingu gæsluvarðhalds.

Reiddi fram 2,5 milljónir og flaug til Spánar

Þegar yfirlýsingin frá Sindra barst blaðinu var ekki vitað hvar Sindri hélt sig en grunur lék á um að hann væri komin til Spánar, þangað sem fjölskylda hans var flutt búferlum.

Eftir örfáa daga á flótta birtist mynd af Sindra ásamt félögum hans Hafþóri Loga og Viktori Inga á Instagram. Af myndinni mátti sjá að þeir voru staddir í Amsterdam í Hollandi. Þarlend lögregla handtók Sindra sama dag og var hann úrskurðaður í 19 daga gæsluvarðhald þar meðan leyst var úr framsalsmálum.

Mynd sem birtist á samfélagsmiðlum, af Sindra og félögum hans í miðborg Amsterdam, markaði endalok flóttans.

Sindri lagðist ekki gegn því að vera framseldur til Íslands en tók fram við dómarann þar ytra að hann hefði verið frjáls ferða sinna þegar hann yfirgaf Ísland.

Sindri hafði verið á flótta í níu daga, þegar hann var fluttur til Íslands og færður fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness sem úrskurðaði hann í farbann til 1. júní. Ekki var unnt að fara fram á gæsluvarðhald yfir honum því óheimilt er að halda mönnum í gæsluvarðhaldi lengur en 12 vikur, hafi ákæra ekki verið birt.

Réttarhöld út þessa viku

Fyrir Landsrétti krefjast þeir dómfelldu sýknu sem ekki játuðu brot sín en að öðru leyti er gerð krafa um lægri refsingu. Aðeins einn hinna dómfelldu er viðstaddur aðalmeðferðina í Landsrétti, Viktor Ingi Jónasson. Sindri Þór og Hafþór Logi eru báðir búsettir á Spáni og mæta ekki í eigin persónu fyrir dóm. Matthías afplánar nú dóm fyrir fíkniefnabrot.

Í dag eru spilaðar upptökur af skýrslutökum sem fram fóru í héraði, en munnlegur málflutningur sækjenda og verjenda fer fram á morgun og föstudag.