Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata og formaður mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs Reykjavíkurborgar, hefur óskað eftir komu lögreglustjóra, Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, á fund ráðsins á fimmtudag til að svara spurningum vegna starfa lögreglu.

Kvartanir hafa borist ráðinu vegna framgöngu lögreglu á Secret Solstice og Hinsegin dögum samkvæmt fréttatilkynningu Pírata. Fjallað hefur verið um handtöku Elínborgar Hörpu Önundardóttur á Gleðigöngunni þar sem hún var sökuð um að ætla að mótmæla. Í samtali við Fréttablaðið sagði Elínborg að um lögreglueinelti væri að ræða.

Fjöldi mála í bótakröfuferli

Einnig hafa fjölda bótakrafa borist í kjölfar þess að lögregla leitaði í óheimil á fólki sem sótti Secret Solstice tónlistarhátíðina í Laugardal. Lögregla var að eigin sögn ánægð með hátíðina í ár þrátt fyrir að upp hafi komið 15 fíkniefnamál.

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkurborgar ákvað að fylgja téðum málum eftir með því að fá kynningu frá lögreglustjóra um verklagi lögreglu við borgarhátíðir. Ráðið fer með eftirlit með því að réttindi borgarbúa séu virt þver á stjórnsýslu Reykjavíkurborgar.

Traust borgarbúa mikilvægt

„Virðing fyrir borgararéttindum er hornsteinn lýðræðisins. Lögreglan hefur einkarétt á beitingu valds gagnvart þegnum okkar lýðræðissamfélags og gríðarlega mikilvægt er að vel sé farið með það vald til að halda trausti borgarbúa á löggæslukerfinu og réttarríkinu sem slíku,” segir Dóra.