Konur sem hafa orðið fyrir röskun á tíða­hring í kjöl­far bólu­setningar hyggjast senda Land­lækni bréf klukkan sex í kvöld. Þar er Land­læknir beðinn um að skoða þessa auka­verkun sér­stak­lega.

Rebekka Ósk Sváfnis­dóttir stofnaði ný­lega Face­book-hóp fyrir konur í þessari stöðu og safnar nú undir­skriftum og sögum frá konum sem eru haldnar auka­verkunum til að senda Land­lækni.

„Það sem ég stend fyrir, það eina sem ég stend fyrir, er að þetta verði skoðað, rann­sakað og opin­berað,“ segir hún.

Sem stendur er 591 kona skráð í hópinn og Rebekka á eftir að sam­þykkja 65 til við­bótar. Hún segist ekki hleypa neinum í hópinn nema þær svari því að þær hafi fengið auka­verkanir eftir bólu­setningu og að þær séu full­bólu­settar.

Þá þurfa allar að svara því að þær muni gæta fyllsta trúnaðar og deili ekki neinu úr hópnum. „Þetta er kannski við­kvæmt mál­efni fyrir margar konur og þarna verður að ríkja trúnaður,“ segir hún.

Marg­vís­legar sögur kvenna

Rebekka var sjálf á blæðingum í 53 sólar­hringa sam­fleytt. „Þær eru stopp núna en ég er enn þá mjög verkjuð í móður­lífinu, með mikla brjósta­spennu. Ég er alltaf þreytt, alltaf slöpp og ber öll ein­kenni ó­léttu en ó­létta er ekki til staðar,“ segir hún.

Sögur kvenna úr hópnum eru marg­vís­legar. Margar glíma við svipuð ein­kenni og Rebekka en aðrar segjast hafa misst úr blæðingum. Ein ung kona undir þrí­tugt hefur misst úr blæðingum í fimm mánuði.

Ein­hverjar konur á breytinga­skeiði segja frá því að hafa byrjað aftur á blæðingum, jafn­vel eftir að hafa verið á breytinga­skeiði í fimm ár. Ein kona í hópnum er ó­frísk og hefur farið á blæðingar í þrjá mánuði á sinni með­göngu.

„Allar kvarta þær líka yfir þessum hrika­lega miklu tíða­verkjum og þessari brjósta­spennu. Þær tala um að þær svitni ó­eðli­lega mikið og að þær séu ó­eðli­lega þreyttar. Þetta eru marg­vís­legar sögur,“ segir Rebekka.

Ein­hverjir karl­menn hafa líka haft sam­band við Rebekku eftir hún byrjaði að vekja at­hygli á mál­efninu. Hún hefur fengið skila­boð frá nokkrum körlum sem finna fyrir brjósta­spennu og sem hafa verið með stöðugan haus­verk, jafn­vel í ein­hverja mánuði.

Litla hjálp að fá

Rebekka segist ekki hafa fengið neina eftir­fylgni með sínu máli frá læknum eða öðrum stofnunum. Hún er enn að bíða eftir tíma hjá kven­sjúk­dóma­lækni en þar er löng bið. Hún hafði talað við heimilis­lækni en það kom ekki mikið út úr því.

Hún segir margar kvennanna í hópnum hafa leitað bæði til lækna og kven­sjúk­dóma­lækna en í flestum til­fellum hafi læknar sagst ekki vita hvað þeir eigi að gera. Þeim er sagt að það þurfi bara að bíða og sjá.

Ein­hverjar konur sem hafa upp­lifað miklar blæðingar fengu svo kallaðar stopp­töflur sem eiga að stoppa blæðingar en þær virðast ekki heldur hafa dugað til.

Rebekka bendir öllum konum í hópnum á að hafa sam­band við Lyfja­stofnun og til­kynna um auka­verkanirnar auk þess að biðja um læknis­tíma og tala við Land­lækni.

Finnst vara­samt að bólu­setja ó­frískar konur og stelpur án meiri rann­sókna

„Það vantar al­gjör­lega að fylgja þessu eftir og það þarf al­gjör­lega að upp­lýsa þjóðina um það hvaða á­hættu þau taka með því að taka við þessum ó­rann­sökuðu efnum,“ segir Rebekka.

Flestar konurnar hafi verið al­heil­brigðar fyrir bólu­setningu en séu það ekki lengur. Rebekka segir það vera mikil­vægt að mál­efni kvennanna séu skoðuð og opin­beruð. „Og mér finnst bara al­gjört til­efni til þess að gera það áður en á að gefa ung­dómi þetta og ó­léttum.“

Konunum í hópnum tala um ó­þægindi þess að vita ekki hvaða lang­tíma­á­hrif verði af bólu­setningunni, hvort þær verði mögu­lega ó­frjóar og hve­nær tíða­hringurinn komist í lag. Þá segir Rebekka að margar kvennanna séu að reyna eignast börn en geti það ekki núna vegna tíðaraskanna.

„Ég er ekki sam­særis­manneskja og ekki á móti bólu­setningum. Ég er ein­fald­lega móðir ungrar stúlku og sjálf kona sem á við auka­verkanir að stríða. Ég var al­heil­brigð fyrir þessa bólu­setningu en er það svo sannar­lega ekki í dag,“ segir Rebekka.