Stéttarfélagið Efling leggur til þrjár árlegar hækkanir mánaðarlauna og sérstaka framfærsluuppbót sem nema 167 þúsund krónum í kröfugerð félagsins til Samtaka atvinnulífsins vegna kjarasamninga sem renna út á morgun, 1. nóvember.
Kröfugerðin er harðorð en í henni segir að „áróðursmaskína auðmagnseigenda“ hafi hafið störf. „Líkt og ætíð er boðskapurinn sá að greiðsla mannsæmandi til launa sé stórhættuleg samfélaginu, ef ekki hreinlega brot á náttúrulögmálum,“ segir í kröfugerðinni.
Krefjast krónutöluhækkana mánaðarlauna
„Bera má þessa hækkun saman við þá 102.500 króna hækkun sem náðist á samningstíma Lífskjarasamningsins að meðtöldum hagvaxtarauka,“ segir í kröfugerðinni.
„Heimili láglaunafólks hafa búið við langvarandi hallarekstur. Sú krónutöluhækkun sem samið er um þarf að vinda ofan af því óþolandi ástandi að ráðstöfunartekjur láglaunafólks séu undir framfærsluviðmiðum.“
„Verkefni næstu þriggja ára er skýrt í okkar huga. Við ætlum að halda áfram á þeirri braut að ná fram kjarabótum fyrir félagsfólk Eflingar. Það þarf að verja launin okkar gegn verðhækkunum á lífsnauðsynjum og það þarf að vinda ofan af hallarekstri á heimilum láglaunafólks. Leið krónutöluhækkana hefur sannað sig sem besta leiðin að þessum markmiðum. Algjör eining var meðal samninganefndar Eflingarfélaga um kröfugerðina,“ sagði Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar sem jafnframt er formaður samninganefndar.
Samninganefnd Eflingar fer fram á kjarasamning sem gildir til 1. nóvember 2025, eða til þriggja ára, „þar sem byggt verði á forsendum og árangri Lífskjarasamningsins.“
Vilja lengra orlof fyrir alla
Þá er krafist þess að félagar Eflingar sem starfa á almenna vinnumarkaðinum fái 30 daga orlof, líkt og þeir félagar sem starfa hjá hinu opinbera.
„Verka- og láglaunafólk hrökklast af vinnumarkaði fyrir aldur fram sökum slítandi vinnu og lífslíkur þeirra mælast jafnvel styttri en annarra. Eflingarfélagar hafa brýna þörf fyrir hvíld frá vinnu eins og aðrir,“ segir í kröfugerðinni.
Samninganefnd vill þá einnig umræðu um möguleika til styttingu vinnuvikunnar hjá félögum á almenna vinnumarkaðinum, „án þess að afleiðingin sé enn meira álag eða skerðing á nauðsynlegri hvíld í vinnu.“
Strangar aðgerðir gegn launaþjófnaðar
Krafist er því að strangar afleiðingar verði fyrir launaþjófnað. „Eflingarfélagar hafa árum saman krafist aðgerða vegna kjarasamningsbrota. Tryggja þarf strangar afleiðingar fyrir launaþjófnað.“
„Stórbæta þarf framfylgd þegar umsaminna réttinda í samningnum svo sem lágmarksfyrirvara um breytingar á vaktaplönum, gerð ráðningasamninga og starfslýsinga sem rýma saman, hvíldartíma bílstjóra og viðunandi aðbúnað í gistingu á ferðum um landið,“ segir í kröfugerðinni.