ASÍ, Félag íslenskra bifreiðaeigenda, Neytendasamtökin og fleiri félög krefjast þess að ríkisstjórnin lækki skatta á bensín tímabundið eða beiti sér með öðrum hætti til að létta byrðar almennings.

Verð á bensíni hefur aldrei verið hærra í sögu landsins. Árið 2005 kostaði bensín 115 krónur, árið 2017 rúmar 160 krónur hjá Costco en í gær fór bensínverð vel yfir 300 krónur á lítra. Eldsneytisverð hefur hartnær tvöfaldast á fimm árum. Meginskýring verðhækkana undanfarið er innrás Rússa í Úkraínu.

Fréttablaðið/Anton Brink

Hinir efnaminni hafa enga burði til að kaupa sér raf- eða metanbíla sem nota ódýrari og umhverfisvænni orkugjafa, að sögn formanns Neytendasamtakanna, Breka Karlsonar. „Þetta bitnar á þeim sem síst skyldi, þeim sem eru með lægstu tekjurnar,“ segir Breki. „Við viljum að stjórnvöld lækki álögur á bensínverð og við viljum líka að fyrirtækin seinki áhrifum hækkunar eldsneytisverðs til neytenda.“

Drífa Snædal, forseti ASÍ, kallar eftir inngripi stjórnvalda. „Margt láglaunafólk þarf að sækja vinnu um langan veg vegna hærra húsnæðisverðs á athafnasvæðum. Því er þetta kjararýrnun sem kemur helst niður á þeim sem þyrfti að hlúa að.“

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segist skilja að álögur á eldsneyti séu háar vegna loftslagsvandans. En nú séu sérstakir tímar og ríkisstjórnin þurfi að bregðast við. „Eitt meginhlutverk stjórnvalda er að koma til móts við þá sem minnst hafa,“ segir Helga Vala.

FÍB birti í gær ákall til stjórnvalda þar sem hvatt er til þess að stjórnvöld lækki álögur á eldsneyti tímabundið til að lágmarka skaðleg áhrif á þjóðlífið.

Ekki bárust svör frá ráðherrum ríkisstjórnarinnar við fyrirspurn Fréttablaðsins um hvort ákallinu verður svarað.